„Þetta er ekki boðlegt,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um þá stöðu að sambandið hefur verið með lausa kjarasamninga við útgerðarmenn síðan í desember 2019.

Samkomulag náðist í febrúar síðastliðinn milli fulltrúa Sjómannasambandsins og fulltrúa Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um nýjan kjarasamning. Hann var hins vegar felldur með miklum meirihluta af félagsmönnum Sjómannasambandsins. Greiddu yfir 67 prósent þeirra sem þátt tóku atkvæði gegn þeim samningi.

„Það var rosalegur áróður sem fór í gang á netinu, sumir misskildu þetta og fóru í harða mótspyrnu gegn okkur,“ svarar Valmundur spurður um ástæðu þess að samningnum var hafnað. „Það var öllu snúið á hvolf. Það var alls konar misskilningur sem maður reyndi að leiðrétta en þá var manni bara hent út.“

Hafi fellt mjög góðan samning

Valmundur segir óánægjuna aðallega hafa snúist um lengd samningsins sem átti að vera til tíu ára.

„Sumir voru alveg vitlausir yfir því en núna til dæmis erum við búnir að vera samningslausir í fjögur ár. Við höfðum útgöngu eftir fimm ár ef forsendur hefðu breyst,“ segir Valmundur. Eftir fyrstu fimm árin hafi verið hægt að segja upp samningum með eins árs fyrirvara. Hann telur samninginn hafa verið mjög góðan fyrir sjómenn.

„Við vorum að tryggja í sessi hlutaskiptakerfið sem menn eru greinilega mjög ánægðir með vegna þess að þegar vel gengur þá erum við að njóta ávaxtanna. Og auðvitað þegar illa gengur þá minnka launin. En það helst í hendur við afkomuna hjá útgerðinni þannig að við erum að skipta hlut með henni,“ sergir Valmundur.

Oft án samninga

Að sögn Valmundar tóku menn aftur að funda hjá ríkissáttasemjara í ágúst. Fundað hafi verið í þarsíðustu viku og í síðustu viku og fleiri fundir séu fyrirhugaðir. „Við getum sagt að það sé allt á byrjunarstigi,“ segir hann um gang þeirra viðræðna.

Því fer fjarri að það sé nýtt að sjómenn séu án samninga. Það var til dæmis einnig upp á teningnum frá 2011 til 2017. Spurður um skýringu á þessu nefnir Valmundur hlutaskiptakerfið.

Á gengistryggðum launum

„Við erum ekki að sækja launahækkanir með prósentum eða krónutöluhækkunum. Þannig að á meðan hluturinn er góður hjá sjómönnum þá kvarta menn ekki. Það er ekki fyrr en fiskurinn lækkar út af einhverjum ástæðum eins og gerðist 2015 að menn eru tilbúnir að gera eitthvað,“ segir Valmundur. Sjómenn séu tryggðir með hlutaskiptunum.

„Við erum eiginlega á gengistryggðum launum. En á meðan hækkar hins vegar ekki tímakaupið okkar eða kauptryggingin sem hækkaði síðast 2019,“ segir Valmundur sem aðspurður kveður sjómenn ekki til í harðan slag um kjarasamning um þessar mundir.

„En það hlýtur einhvern tímann að enda með því að menn séu tilbúnir að gera eitthvað. Það ætla ég að rétt að vona,“ segir formaðurinn.

Tíminn með útgerðinni í liði

Spurður um viðhorf   viðsemjendanna segir Valmundur þungt í þeim líka. „Þeir eru svolítið bundnir af að skipstjórarnir eru búnir að gera samning, það verður bara að segjast eins og er,“ segir hann.

Að sögn Valmundar vinnur tíminn með útgerðinni. „Eftir því sem tíminn líður eru útgerðarmenn að græða ef þeir semja ekki við okkur þannig að pressan er á okkur en ekki þeim. Þessi samningur sem var gerður í febrúar var metinn sem einn og hálfur til tvær milljarðar í kostnaðaraukningu fyrir útgerðina á ári. Þannig að þeir spara sér fullt af peningum á hverjum einasta degi sem þeir semja ekki við okkur. Þetta verða menn að fara að skilja.“

Kolfelldu samning í mars

Kjarasamningur milli SSÍ og SFÍ sem undirritaðir voru 9. febrúar á þessu ári voru felldir í atkvæðagreiðslu hjá SSÍ í mars. Á kjörskrá voru 1200 félagsmenn aðildarfélaga SSÍ og af þeim tóku 571, eða 47,58 prósent, þátt í atkvæðagreiðslunni. 180, eða 31,52 prósent, samþykktu samninginn, 385, eða 67,43 prósent, höfnuðu samningnum, 6, eða 1,05 prósent, skiluðu auðu.