Nýgerður kjarasamningur sjómanna veldur 3-4 milljarða útgjaldaaukningu fyrir útgerðina á samningstímanum sem er tvö ár og tíu mánuðir. Þetta kemur fram í viðtali við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í nýjustu Fiskifréttum.

Að sögn hennar skiptast viðbótarútgjöldin þannig í grófum dráttum að kaupskráruppbót, sem er eingreiðsla á fyrsta ári, nemur um 1,2 milljörðum króna, breyting á olíuverðsviðmiðun er metin á um 350 milljónir króna árlega og afgangurinn, 500-700 milljónir árlega, stafar af öðrum liðum eins og auknum kostnaði vegna fæðis og vinnufata, aukinni skiptaprósentu á uppsjávarveiðum og fleiru.

Sjá nánar viðtöl í Fiskifréttum við Heiðrúnu Lind og Valmund Valmundsson formann Sjómannasambandsins að loknu verkfallinu.