Gunnar Davíðsson, deildarstjóri í auðlindadeild Tromsfylkis í Noregi segir landeldi á fiski eiga góða möguleika í framtíðinni.

„Sérstaklega á Íslandi þar sem enn er nóg af „heitum“ sjó og því ætti að vera hægt að ná góðri hagkvæmni og auka framleiðsluna á tiltölulega vistvænan hátt,“ svarar Gunnar spurður hvernig fiskeldi geti orðið öruggari, umhverfisvæna og arðbærara.

„En sjókvíaeldið mun nú samt áfram vera það vistvænasta, enda þarf enga orku til að dæla sjó og mannvirki tiltölulega lítil og þar af leiðandi minna umhverfisfótspor,“ bætir Gunnar þó við.

Mestur vöxtur norðan til í Noregi

Norðmenn eru risaþjóð í fiskeldi og Gunnar segir vöxtinn halda áfram og vera mestan á hans starfssvæði norðan til í N oregi.

„Vöxturinn hefur verið minni á vesturströndinni, enda meiri lús þar og lúsin er það sem ræður hvort auka megi framleiðsluna samkvæmt „umferðarljósunum“ margfrægu.

„Þorskeldið er að aukast líka og það verður spennandi að sjá hvernig því vindur fram á komandi árum. Nú eru þorskkvótar að minnka í Noregi og verð hefur verið hátt og er hækkandi á þorski,“ segir Gunnar.

Umferðarljósakerfið sem Gunnar nefnir heimilar framleiðsluaukningu á svæðum með engum eða litlum ágangi laxalúsar og dregur úr framleiðslu á svæðum með mikilli lús.

Gunnar Davíðsson er í yfirgripsmiklu viðtali í jólablaði Fiskifrétta.