„Matvælastofnun hefur ekki heimild til að taka umsóknir fram yfir þá röð sem þegar er sett,“ segir í Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, spurð um viðbrögð við erindi sveitarstjórnar Múlaþings varðandi sjókvíaeldi á Seyðisfirði.
Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um rekstrarleyfi fyrir tíu þúsund tonna sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Skoðanir heimamanna á málinu er afar skiptar. Þegar heimastjórn Seyðisfjarðar ræddi fyrirhugaða lokun Síldarvinnslunnar á bolfiskvinnslu sinni í bænum þann 11. október síðastliðinn var um leið samþykkt að óska eftir því að sveitarstjórn Múlaþings myndi „fara þess á leit við Matvælastofnun að afgreiðsla rekstrarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði verði sett í forgang,“ eins og segir í samþykktinni.
Sveitarstjórnin vildi niðurstöðu
Eftir umræður um málið var samþykkt í sveitarstjórninni þann 18. október að þess yrði „farið á leit við Matvælastofnun að niðurstaða fáist við afgreiðslu rekstrarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði“. Með þessu væri ekki tekin afstaða með eða á móti fiskeldi eða lögð áhersla á einstakar atvinnugreinar umfram aðrar. „Mikilvægt er þó að vandað verði til verka við afgreiðslu umsóknar,“ tók sveitarstjórnin fram.
Í gær svaraði Matvælastofnun sveitarstjórninni.
„Eins og sakir standa eru tvær aðrar umsóknir um rekstrarleyfi á undan í röðinni en Matvælastofnun getur ekki tekið umsóknir um rekstrarleyfi fram fyrir þá röð sem stjórnsýslan setur okkur. Úrvinnsla Matvælastofnunar á umsókn um fiskeldi í Seyðisfirði hefst því ekki fyrr en lokið hefur við þau rekstrarleyfi sem eru á undan. Eins má benda á að Matvælastofnun getur ekki tekið rekstrarleyfi um fiskeldi í Seyðisfirði til umfjöllunar fyrr en áhættumati siglingaleiða er lokið en sú vinna er á höndum Vegagerðarinnar,“ segir í svarinu til Múlaþings.
Ekki eingöngu í höndum Matvælastofnunar
„Tímalína þessarar vinnu er því miður þess eðlis að ekki er hægt að segja til um hvenær umsóknin verður tekin fyrir,“ segir áfram í svarinu. „Ástæðan er sú að þar koma inn þættir eins og bent er á hér að ofan sem eru ekki á forræði Matvælastofnunar. Matvælastofnun vinnur að öllum málum af fagmennsku og mikilvægt að vanda til verka.“
Við Fiskifréttir segir Hrönn forstjóri að eins og í öllum málum þá vinni Matvælastofnun eins hratt og örugglega og þau mögulega geti. „Því getum við ekki orðið við beiðni sveitastjórnar að öðru leiti en vinna okkar vinnu eins faglega og okkur er mögulegt, sem við gerum engu að síður óháð beiðni sveitastjórnar,“ undirstrikar Hrönn.