Í sérblaði Fiskifrétta, Fiskeldi/lagareldi, sem kom út sl. miðvikudag, er aðsend grein eftir Jón Kaldal, félaga í Íslenska náttúruverndarsjóðnum, þar sem hann segir m.a. að á síðasta ári voru um 55.000 tonn af eldislaxi í opnum netapokum við Ísland. Skólpið sem rann óhindrað í gegnum netmöskvana hafi verið á við skólp frá 880.000 manns.

EFTIR JÓN KALDAL
Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum erum á þeirri skoðun að ef menn vilja fá leyfi til að ala lax í sjó verði þeir að uppfylla þessi fjögur skilyrði: 1) Að úrgangur frá starfseminni verði ekki látinn renna óhreinsaður beint í hafið. Nú streymir skítur, plast, koparoxíð, fóðurleifar, lyf og eiturefni úr sjókvíum hindrunarlaust í gegnum netmöskvana. 2) Að enginn eldislax sleppi. 3) Að sjúkdómar og sníkjudýr berist ekki í sjó eða vatnsföll. 4) Að velferð eldislaxanna verði bætt og notkun hreinsifisks hætt. Sá fiskur (oftast hrognkelsi) er settur er í kvíarnar til að éta lús af eldislöxunum og drepst allur. Þessi meðferð á dýrum er óásættanleg. Vandamálið með laxeldi í opnum sjókvíum er að það uppfyllir ekki eitt einasta af þessum skilyrðum. Það er til dæmis á sérstakri undanþágu frá lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, og reglugerð um fráveitur og skólp. Þessi lög og reglur voru sett til að „vernda hafið gegn mengun og athöfnum, sem geta stofnað heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir, raskað lífríki og spillt umhverfi,“ eins og það er orðað af löggjafanum. Þeir sem stunda laxeldi á landi þurfa, eðlilega, að upp fylla öll þessi lög og reglugerðir, er þó mengunin frá þeirra starfi margfalt minni en frá sjókvíaeldinu.
Í „viðtakanum“
Í gögnum frá norsku Umhverfisstofnuninni kemur fram að mengunin frá hverju tonni af laxeldi í sjókvíum er á við skólp frá sextán manns. Á síðasta ári voru um 55.000 tonn af eldislaxi í opnum netapokum við Ísland. Skólpið sem rann óhindrað í gegnum netmöskvana var á við frá 880.000 manns. Ef framleiðslan nær 106.500 tonnum, eins og þakið hefur verið undanfarin ár, mun það þýða skólpframleiðslu á við 1,7 milljón manns á hverju ári. Nú eru örugglega einhverjir lesendur að klóra sér í höfðinu. Hvernig stendur á því að sjókvíaeldið hefur fengið þessar undanþágur?
Svar við þeirri spurningu er að finna hjá Umhverfisráðuneytinu. Stutta útgáfan er að um sjókvíeldi gildi sérstök lög og reglugerðir vegna þess að „starfsemin fer fram í viðtakanum“. Já, þetta er rétt. Löggjafinn hefur ákveðið að í sjókvíaeldi með lax má losa óhreinsað skólp í umhverfið. Er það ólíkt því sem gildir um bókstaflega allt annað búdýrahald þar sem framleiðendur eiga yfir höfði sér fangelsisdóma ef þeir standa eins að verki og sjókvíaeldisfyrirtækin.
Varnaðarorð Hafrannsóknastofnunar
Enginn vafi er á því að sjó kvíaeldi hefur veruleg áhrif á lífríkið á hafsbotni undir kvíunum og í nágrenni þeirra. Meðal þess sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa bent á er að eldið geti raskað umhverfi þorskseiða og þar af leiðandi skaðað heilbrigði þorskstofnsins, sem er einn mikilvægasti nytjastofn landsins. Sérfræðingar stofnunarinnar hafa líka margsinnis lýst yfir áhyggjum af áhrifum lyfja og skordýraeiturs, sem notuð eru í sjókvíaeldi gegn laxa- og fiskilús, á villtar sjávarlífverur. Þá sérstaklega krabbadýr sem eru mikilvæg í fæðukerfi íslenskra fjarða. Allt er þetta vel þekkt og hefur ítrekað komið fram. Það er því erfitt er að skilja af hverju stjórnvöld hafa kosið að hleypa þessum iðnaði í firði okkar. Og óskiljanlegt er með öllu að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir þennan skaðlega iðnað. Hann vegur með beinum hætti að hagsmunum allra annarra fyrirtækja innan samtakanna, sem eiga allt sitt undir sjálfbærri umgengni við auðlindir hafsins.