Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Ritsýnar, sem stendur að baki Sjávarútveg/Iceland Fishing Expo og iðnaðarsýningu næsta haust í Laugardalshöll, segir sýningarnar hafa stækkað og eflst. Segir hann Ritsýn hafa pantað sýningarrými í Höllinni fyrir næstu fjögur ár enda hafa sýningarnar verið uppseldar.
Bein og milliliðalaus samskipti
„Við finnum mikinn og vaxandi áhuga hjá fyrirtækjum og er greinilegt að það er mikil þörf fyrir sýnendur að hitta gamla og gjarnan nýja viðskiptavini. Eftir því sem tjáskipti verða ópersónulegri á tímum gervigreindar þá sannast æ betur að ekkert jafnast á við bein og milliliðalaus samskipti. Okkar sérstaða hjá Ritsýn er sú að sýnendur fá fría boðsmiða eins marga og hentar til að bjóða gestum. Þannig nær sýnandinn betur til markhópsins og gestir verða jákvæðari og áhugasamari að mæta á sýninguna. Það hefur aldrei áður verið eins mikill áhugi fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum að taka þátt í sýningum og í ár.“
Sýningar í 28 ár
Ólafur að Ritsýn hafi haldið fagsýningar í 28 ár. „Við höfum staðið fyrir fjölbreyttum sýningum meðal annars á sviði heilsu, fjármála, flutninga, stóreldhúsa, landbúnaðar auk sjávarútvegs og iðnaðar. Það er ánægjulegast við þessar sýningar hversu sterk tengsl virðast gjarnan myndast milli sýnandans og gamalla og nýrra viðskiptavina.“
Hvað varðar sýningarnar í haust þá svarar Ólafur: „Sjávarútvegur/Iceland Fishing Expo er núna haldin í fjórða skipti. Á sýningunni eru allar tegundir af fyrirtækjum er þjóna íslenskum sjávarútvegi. Þarna hafa gjarnan verið kynntar ýmsar nýjungar sem hafa vakið mikla athygli. Sýningin spannar mjög vítt svið bæði er varðar hátæknibúnað fyrir veiðar og vinnslu og svo er fiskeldið að koma sterkt til leiks,“ segir Ólafur.