Aðstandendur sjávarútvegssýningarinnar í Boston tóku þá ákvörðun í gær að aflýsa sýningunni í ár vegna COVID-19 vírussins. Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum sýningarinnar er verið að leita leiða til þess að halda sýninguna síðar á þessu ári, en engar nánari upplýsingar hafa fengist um það að svo stöddu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu sem mun fylgjast með framvindu mála og tilkynna um breytingar sem kunna að verða.
„Engin ákvörðun hefur verið tekin um að fella niður sjávarútvegssýninguna í Brussel, og er hún enn á áætlun dagana 21.-23. apríl. Belgía er ekki á lista landlæknis yfir há-áhættusvæði sem stendur. Íslandsstofa mun fylgjast með framvindu mála og senda frekari upplýsingar ef aðstæður breytast,“ segir jafnframt í tilkynningu Íslandsstofu.