Gert er ráð fyrir að Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar taki til starfa í sumar en skólinn er tilraunaverkefni þar sem grunnskólanemendum verður gefinn kostur á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu. Skólinn verður settur í vikunni fyrir verslunarmannahelgi og mun kennslan fara fram dagana sitt hvoru megin við þá helgi.
Námsefnið verður fjölbreytt og kennarar verða margir. Í upphafi námsins verður sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð verður áhersla á tækniþróun og þau samfélagslegu áhrif sem sjávarútvegurinn hefur haft. Skólinn mun fá heimsóknir og meðal annars munu fyrrum sjómenn og starfsmenn í fiskvinnslu koma og segja frá reynslu sinni og þeim breytingum sem þeir hafa upplifað. Eins verður fjallað um Síldarvinnsluna, sögu hennar og starfsemi, og gerð grein fyrir einkennum nútíma sjávarútvegsfyrirtækja og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag.
Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar .