Í sumar verður Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar settur í fyrsta sinn. Skólinn verður hluti af Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar og ætlaður unglingum á vinnuskólaaldri. Skólinn er skipulagður að austfirskri fyrirmynd, en verður þó með sínum sérstöku áherslum, sem taka mið af því umhverfi sem hann starfar í.

Sjávarútvegsskólinn er samstarfsverkefni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, áhugafólks um sjávarútveg og fyrirtækja og stofnana í sjávarútvegi. Markmið skólans er að auka áhuga ungs fólks á sjávarútvegi og kynna fyrir þeim þá framtíð sem í þessari tæknivæddu atvinnugrein felst.

Bakhjarlar skólans eru eftirtalin fyrirtæki og stofnanir: Aldan ÍS 47, Fjarðanet, Hraðfrystihúsið - Gunnvör, Hafrannsóknastofnun, Íslandssaga, Kampi, Kerecis, Klofningur, Matís, og 3X Technology.

Skólinn starfar í eina viku í sumar; frá 20. til 24. júní. Kennt verður á vinnutíma Vinnuskólans; kl. 8 – 14. Fyrst á morgnana verður bókleg kennsla en síðan verða fyrirtæki og stofnanir heimsótt og fer megintíminn í þær heimsóknir.

Umsjónarmaður og aðalkennari verður Kolbrún María Elfarsdóttir, sjávarútvegsfræðingur.

Skólanum verður stjórnað af stýrihópi sem skipa þau Esther Ósk Arnórsdóttir frá Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar, Guðbjörn Páll Sölvason frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Anton Helgi Guðjónsson frá hópi áhugafólks.