Föstudaginn 22. júlí lauk síðustu kennsluviku sjávarútvegsskólans sumarið 2016, en skólinn hefur verið starfrækur frá 13. júní. Starfssvæði skólans í sumar var allt Austurland eða frá Hornafirði til Vopnafjarðar. Nemendur í vinnuskólunum á þessu svæði fædd árið 2002 bauðst til að sækja skólann í eina viku og jafnframt halda launum sínum frá sínu sveitarfélagi. Kennsla fór fram á Höfn, Vopnafirði, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Nemendur í nærliggjandi byggðum sóttu síðan skólann á þeim kennslustað sem var næst þeirra heimabyggð.

Nemendur í Sjávarútvegsskólanum fengu fræðslu um sögu fiskveiða og fiskvinnslu, helstu nytjategundir Íslands og markaðs-, gæða- og öryggismál. Þannig fengu þeir að kynnast stuttlega allri virðiskeðju sjávarútvegarins á Íslandi. Einnig heimsóttu þeir fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, t.a.m; uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju, botnfiskvinnslu, netagerð, fiskimarkaði og rannsóknarstofur.

Skólinn var stofnaður árið 2013 af Síldarvinnslunni og hét þá Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Hann var fyrst einungis í boði í Neskaupstað en hefur fært út kvíarnar á hverju ári. Sumarið 2014 var kennt í allri Fjarðabyggð, sumarið 2015 bættist Seyðisfjörður við og nú í sumar nutu nemendur frá Höfn og Vopnafirði góðs af skólanum. 2015 hlaut Síldarvinnslan viðurkenninguna menntasproti atvinnulífsins fyrir frumkvæði að stofnun Sjávarútvegsskólans.

Á vordögum var undirritaður samstarfssamningur milli Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi sem fól í sér að háskólinn hafi umsjón með starfi Sjávarútvegsskólans sumarið 2016. Fyrirtækin sem tóku þátt í verkefninu voru Síldarvinnslan, Eskja, Loðnuvinnslan, Gullberg, HB Grandi og Skinney-Þinganes ásamt Háskólanum á Akureyri. Síldarvinnslan og Háskólinn á Akureyri leiða verkefnið saman og er áhugi á að breiða út skólann enn frekar á næstu árum. Þá liggur beinast við að færa skólann á Norðurland sumarið 2017.