Taívanski sjávarútvegsrisinn og einn stærsti túnfiskframleiðandi heims, FCF Co.Ltd. (Fong Chun Formosa) samdi á dögunum um kaup á WiseFish hugbúnaðinum og Microsoft Business Central frá Wise. Salan er ein sú stærsta í sögu Wise, en fyrirtækið hefur þróað WiseFish hugbúnaðinn í yfir 20 ár. FCF er hefur yfir 50 ára reynslu í túnfiskframleiðslu, á yfir 30 félög sem sinna útgerð, vinnslu og sölu fyrir fyrirtækið. FCF er í allra fremstu röð þegar kemur að sjálfbærni í veiðum og vinnslu og leggur gríðarlega áherslu á gæði og rekjanleika sjávarafurða sinna.
„WiseFish er bylting fyrir okkur þegar kemur að innleiðingu á nýrri tækni í verksmiðjum okkar á Papúa Nýju-Gíneu. Kerfið veitir okkur rauntímayfirlit yfir starfsemina frá upphafi til enda, allt frá rekjanleika hráefnis til upplýsinga um reksturinn almennt,” segir Tony Costa, forstjóri Bumble Bee Seafoods, í tilkynningu. Hann átti stóran þátt í vali á WiseFish fyrir FCF.
FCF er móðurfélag Bumble Bee sem á og rekur vinnslustöðvar og dreifingarmiðstöðvar um allan heim og saman mynda þau eina stærstu sjávarútvegssamsteypu heims.
„Innleiðing á háþróuðu kerfi eins og WiseFish á afskekktum stað eins og Papúa Nýju-Gíneu á sama tíma og heimurinn er að ganga í gegnum heimsfaraldur er ekki auðvelt verkefni. Við settum saman alþjóðlegt teymi frá Taívan, Bandaríkjunum, Papúa Nýju-Gíneu og Íslandi í þessu innleiðingarferli. Þrátt fyrir gríðarlegar áskoranir heimsfaraldursins varðandi að framkvæma alla greiningu og verkefnastjórn í fjarvinnu hefur teymið unnið framúrskarandi starf og innleiðingin gengið eftir áætlun,“ bætir Costa við.
„Það er mikill heiður fyrir Wise að vera valið sem samstarfsaðili FCF í þessu risastóra verkefni og lítum við á það sem mikla viðurkenningu á okkar vörum og getu að fyrirtæki eins og FCF og Bumble Bee velji WiseFish sem grunnkerfi í þeirra framleiðslu,“ segir Jóhannes Helgi Guðjónsson, forstjóri Wise, í tilkynningunni.
„Þetta samstarf mun án efa styrkja Wise og stimpla WiseFish enn sterkar inn sem leiðandi vöru í hugbúnaðarlausnum fyrir sjávarútveginn. Wise er nú þegar að selja WiseFish í yfir 23 löndum utan Íslands. Við höfum fjárfest gríðarlega í þróun á WiseFish og munum halda þeirri stefnu áfram. Lykillinn að þeirri vegferð er að gera það í nánu samstarfi við okkar viðskiptavini og við sjávarútveginn í heild,“ bætir Jóhannes við.