Upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis vísar á bug ásökunum um slæm vinnubrögð og slæma stjórnsýslu ráðuneytisins við ákvörðun um lokun sjö fjarða fyrir dragnótaveiðum.
Tilefnið er grein tveggja sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, þeirra Haraldar A. Einarssonar og Guðrúnar G. Þórarinsdóttur, í Fiskifréttum í síðustu viku þar sem þau gagnrýndu rökstuðning og málsmeðferð sjávarútvegsráðherra vegna lokunarinnar og sögðu ennfremur að ef vernda ætti viðkvæmt botndýralíf yrði að banna veiðar með öllum veiðarfærum.
Ari Matthíasson upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir í grein í nýjustu Fiskifréttum að niðurstöður skýrslu Hafrannsóknastofnunar séu langt frá því að vera skýrar eða óumdeildar. Því sé skýrslan ekki tæk til að meta áhrif dragnótaveiða á botndýralíf. Ráðuneytið sé sammála bæði skýrsluhöfundum og öðrum sem um málið hafi fjallað að frekari rannsókna sé þörf og muni það stuðla að þeim. Þá segir hann að dragnótabannið í fjörðunum sjö lúti fyrst og fremst að stjórnun og skipulagi nýtingar innfjarðasvæða.
Ari vísar einnig á bug ásökunum annars staðar frá þess efnis að ráðuneytið hafi fjarlægt skýrslu Hafrannsóknastofnunar af vef ráðuneytisins vegna þess að hún hafi ekki hentað sjónarmiðum ráðherra. Staðreyndin sé sú að skýrslan hafi verið afturkölluð af Hafrannsóknastofnun á þeirri forsendu að um drög hafi verið að ræða, henni hafi síðan verið breytt í kjölfarið og dregið úr niðurstöðum hennar.
Greinin Ara Matthíassonar er birt í heild í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.