Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, átti símtal við Helgu Pedersen sjávarútvegsráðherra Noregs nú í hádeginu vegna yfirlýsinga í norskum fjölmiðlum um markílveiðar Íslendinga.

Í  frétt frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu segir að símtalið hafi verið vinsamlegt og skipst hafi verið á sjónarmiðum en ljóst sé að skoðanaágreiningur sé á milli þjóðanna. Tilkynnti norski ráðherrann að sent yrði bréf á næstu dögum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins þar sem sjónarmið Noregs yrðu kynnt. Því bréfi mun verða svarað af Íslands hálfu og í kjölfar þess munu næstu skref verða ákveðin.