Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni greinar sem Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur LÍÚ skrifaði í Fiskifréttir í síðustu viku um skötuselsfrumvarp ráðherrans og birtist einnig á vef LÍÚ. Ráðherrann segir að ekki standi til að ganga lengra í aukningu skötuselskvótans en forverar hans hafi gert og heildarveiði undanfarinna ára segi til um.

Í yfirlýsingunni eru birtar tölur sem sýna að þeir sem gegndu embætti sjávarútvegsráðherra á árunum 2003-2009 hafi án undantekninga úthlutað mun meiri aflaheimildum í skötusel en ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar gerði ráð fyrir. Úthlutunin umfram ráðgjöf hafi numið að meðaltali 600 tonnum á þessum árum eða 30% að jafnaði.

,,Væntanlega hefur þetta verið gert vegna eindreginna tilmæla útgerða og talið óhætt þar sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar hefur þótt varfærin m.v. í hve mikilli sókn stofninn hefur verið.  Athyglisvert er einnig í þessu samhengi að Landssamband íslenskra útvegsmanna lagði til sl. sumar við ráðherra, að heildaraflamark skötusels yrði 3.000 tonn eða 500 tonn yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar,” segir í yfirlýsingu ráðherrans.

Ekki kemur fram hversu mikið ráðherrann áformar að bæta við skötuselskvótann en hann tekur fram að leitað verði álits Hafrannsóknastofnunar um væntanlega aflaaukningu og verði stofnunni ætlað að meta sjálfstætt áhættuna af henni.

Sjá greinargerð ráðherrans í heild, HÉR