Þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári verður hinn sami og á yfirstandandi fiskveiðiári, eða 130 þúsund tonn, samkvæmt ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra sem tilkynnt var fyrir stundu.
Ekki verða miklar breytingar á öðrum kvótategundum.
Aflamark í ýsu og ufsa lækkar, en þó ekki jafn mikið og Hafrannsóknastofnunin leggur til, í ljósi sterkrar stöðu þessara stofna.
Þá er aflamark lækkað í karfa um 7 þúsund tonn.
Um lítils háttar aukningu er að ræða í aflamarki steinbíts, humars og skötusels, en aflamark allmargra tegunda breytist ekki á milli ára.
Aflamark í síld er um 20 þúsund tonnum meira en Hafrannsóknastofnunin leggur til, líkt og í fyrra.
Grálúðukvótinn verður óbreyttur eða 15 þús. tonn.