Austral Fisheries er með stærri útgerðum í Ástralíu. Fyrirtækið gerir út 10 togara til rækjuveiða á norðurströndinni í Carpentariaflóa og þrjá togara sem gerðir eru út frá eynni Máritíus út af austurströnd Afríku til veiða á tannfiski við Heard eyju og McDonalds eyjum í Suður-Íshafinu. Austral Fisheries er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum til þess að fá vottun stjórnvalda fyrir að hafa kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Þá hefur langtíma uppbygging fyrir markaðssetningu á tannfiskafurðum fyrirtækisins um allan heim vakið mikla athygli því þar voru fetaðar ótroðnar slóðir að flestu leyti.
Austral Fisheries er merkileg útgerð fyrir margra hluta sakir. Það vekur ekki síst athygli í starfsemi þess er viðhorfið til umhverfismála. Sem fyrr segir var fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum til þess fá vottun stjórnvalda um að hafa kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Þetta gerir fyrirtækið með því að rækta upp skóg í Ástralíu sem er mörg þúsund ferkílómetrar að flatarmáli og hefur meðal annars dregið að sér nýjar fuglategundir. Til að fræðast nánar um sjávarútveg og umhverfisstefnu hinum megin á hnettinum ræddu Fiskifréttir við David Carter, forstjóra Austral Fisheries.
Aflaverðmæti 281 milljarður ISK
Carter fæddist í Nýju Suður-Wales í Austur-Ástralíu og ólst upp í sveitasælunni í næstliggjandi fylki, Victoria, þar sem faðir hans var dýralæknir. Hann útskrifaðist í sjávarútvegsfræðum frá háskólanum í Melbourne. Að námi loknu réði hann sig til fyrirtækis sem var einn af forverum Austral Fisheries. Þar hefur hann starfað nú í yfir 40 ár. Hann varð forstjóri Austral Fisheries 2008.
„Verðmæti þess afla sem dreginn er úr sjó við Ástralíu er um 2,2 milljarðar bandaríkjadala á ári [rúmur 281 milljaður ÍSK]. Sjávarauðlindin er fremur takmörkuð við Ástralíu. Þrátt fyrir að efnahagslögsaga landsins nái yfir átta milljónir ferkílómetra og fiskveiðilögsagan sé sú þriðja stærsta í heimi er sjávarútvegurinn smár í sniðum. Þess vegna hefur hann þróast í sókn eftir verðmætari tegundum eins og humri, risarækju og tannfiski. Útgerð Austral Fisheries snýst að stærstum hluta um veiðar á risarækju í fiskveiðilögsögunni og á tannfiski í efnahagslögsögunni í Suður-Íshafinu,“ segir Carter.
Hann segir að sú staðreynd að Ástralía er fylkjasamband innan Breska samveldisins geri flækjustigið í stjórnun fiskveiða hærra en ella. Á ábyrgð ríkisstjórnar Ástralíu eru úthafsveiðar og veiðar á fjarlægum miðum þar sem einkum eru undir veiðar á risarækju norðan Ástralíu og bláuggatúnfiski og tannfiski að sunnan svo fátt eitt sé nefnt. Stjórnun fiskveiða nær landi er á ábyrgð stjórnvalda í hverju fylki fyrir sig. Þar er einkum gert út á humarveiðar, veiðar á sæeyrum og fleiri tegundum.
Tíu rækjutogarar
„Við hjá Austral Fisheries gerum út tíu togara til veiða á rækju í Carpentariaflóa, sem er stór flói sem gengur inn í norðurhluta Ástralíu, og framleiðum um 2.000 tonn af blönduðum tegundum eins og til dæmis bananarækju og tígrisrækju. Afurðirnar eru seldar jafnt á heimamarkaði sem til annarra landa eins og Japan og Kína og eitthvað fer til Bandaríkjanna. Við gerum út eitt skip frá Darwin til veiða á tannaflekk [e. snapper] í gildrur. Afurðin er seld fersk á heimamarkaði. Stærsti þátturinn hvað veltu varðar eru veiðar á tannfisk á þremur skipum í Suður-Íshafinu við Heard eyju og McDonalds eyjar í Suður-Íshafinu. Um leið eru þetta fjölveiðiskip sem geta veitt mackerel icefish [makríltegund sem finnst aðallega við Heard og McDonalds eyjar]. Markaðir fyrir þessar afurðir eru einkum í Kína, Norður-Ameríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu.“
Virkari þátttaka
Carter segir að sjálfbærni sé ofarlega á listanum hjá Austral Fisheries. Fyrirtækið sækist eftir MSC umhverfisvottun fyrir allar sínar veiðar og leiti lausna áður en vandamál rísi. Mikil vinna hafi verið lögð í endurskoðun á þáttum eins og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, fyrirtækjastefnu og umhverfisstefnu.
„Niðurstaðan var sú að ein stærsta áskorun sjávarútvegsfyrirtækja, sem um leið gæti falið í sér mikil tækifæri, er virkari þáttaka þeirra í umræðunni um loftlagsbreytingar. Við komumst að þeirri niðurstöðu að í gegnum verðmætustu vörumerkin gátum við átt samtal við viðskiptavini okkar og neytendur og upplýst þá um þá þætti sem standa hjarta okkar næst. Okkar fannst að það hlyti að vera kjánalegt að gera kröfur til virðiskeðjunnar eða stjórnvalda ef við værum ekki sjálfir tilbúnir að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Ég er sannfærður um það að sjávarútvegurinn verður fyrstur til að finna verulega fyrir loftlagsbreytingunum. Við sjáum nú þegar að margar tegundir hafa fært sig sunnar í kaldari sjó en áður. Við höfum upplifað sjávarhitabylgjur sem gerðu út af við hörpuskelsveiðar okkar. Það er því kjánaleg afstaða að kalla yfir sig afleiðingar af þessu tagi og gera ekkert í málinu sjálfur.“
Hann segir að samkvæmt losunarbókhaldi Austral Fisheries losi fyrirtækið á bilinu 30-35 þúsund tonn af CO2 árlega.
„Á því svæði sem við höfum ákveðið að kolefnisjafna rekstur okkar plöntum við um það bil 200.000 trjám á nærri 150 hektara svæði á hverju ári. Markmið okkar er að reksturinn verði algjörlega kolefnisfrír, sem sagt að CO2 losun okkar hafi engin áhrif á umhverfið,“ segir Carter.