Á miðvikudagskvöld buðu sjávarútvegsfyrirtæki í Reykjavík undir forystu Guðmundar Kristjánssonar í Brim til óvenjulegrar kynningar á íslenskum sjávarútvegi.
Í rúmgóðu húsnæði á miðbakka Reykjavíkurhafnar var 700 vísindamönnum á ráðstefnu Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem haldin hefur verið í Hörpu í vikunni boðið til kynningar á sjávarútvegi og sjávarfangi og til óformlegs samtals vísindamanna og aðila í sjávarútvegi. Þetta frumkvæði mæltist afar vel fyrir og lét forseti ráðsins Paul Connelly frá Írlandi þess getið að þessi kynning sýndi hve mikilvægt væri að aðilar í sjávarútvegi ættu vinsamleg og uppbyggileg samskipti eins og hér hefði verið. Þá létu margir aðrir ráðstefnugestir þess getið að þessi fundur gæti orðið þeim fordæmi til sambærilegra samskipta á eigin heimavelli.
Frá þessu er skýrt á vef Hafrannsóknastofnunar.