Lagareldi (e. aquaculture) getur tekið á sig ýmsar myndir en í grunninn er hugtakið haft um eldi og ræktun í vatni og sjó. Á Íslandi höfum við stundum notað hugtakið „fiskeldi“ yfir allt lagareldi en það eru tvær aðrar greinar sem ekki fer mikið fyrir í umræðunni hér á landi en það eru skel- og þörungarækt. Sigurður Pétursson er formaður Samtaka þörungafélaga þar sem aðild eiga á fjórða tug félaga. Hann segir að innan sjálfbærrar öflunar, ræktunar og vinnslu smá- og stórþörunga séu gríðarleg tækifæri í uppbyggingu og verðmætasköpun sem snýr að einstökum náttúruauðlindum hér á landi. Aðgangur að grænni raforku, jarðvarma, fersku vatni, heilnæmum sjó eru þær aðstæður sem sóst er eftir í tengslum við þörungastarfsemi.

Á heimsvísu er um þriðjungur af heildarframleiðslu í lagareldi tengt þörungarækt, þá sérstaklega stórþörungarækt, eða um 36 milljónir tonna á ári. Smáþörungarækt er mun minni umfangs á heimsvísu en margfalt verðmætari hvert afurðarkíló. Á því sviði hafa fyrirtæki hér á landi þegar skapað sér sess á heimsvísu, þ.e. í fullvinnslu smáþörungaafurða.
„En við höfum ekki verið framarlega á sviði stórþörungaræktar í sjó hér á Íslandi. Að hluta til má rekja það til innviðamála. Það hafa verið gerðar tilraunir með smáskalaræktun þörunga í sjó. Hingað til hefur þó vantað skilvirkt innviðakerfi fyrir leyfi til tilraunaræktunar fyrir sjóeldi á þörungum. Við finnum þó fyrir miklum vilja núna til þess hjá stjórnvöldum að styðja við uppbyggingu þörungaræktar í sjó. Mikil áhugi er meðal ýmissa sprotafyrirtækja og hagsmunasamtök okkar hafa, að ég tel, ýtt við því. Brim hf. kemur að því að byggja upp sporaræktun fyrir sjóþörungarækt í nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi sem er mikilvægur grunnur að vexti á þessu sviði. Símon Sturluson í Stykkishólmi hefur um árabil stundað tilraunaræktun í sjó og Jamie Lee hjá Fine Foods Islandica er í dag í ræktun og vinnslu þara í Steingrímsfirði,“ segir Sigurður.
Binding koltvísýrings
Hann bendir á að auki komi til talsverð binding á gróðurhúsalofttegundum við ræktun af þessu tagi og engin lífvera í heiminum sé virkari í bindingu koltvísýrings og um leið framleiðslu á súrefni en sjávarþörungar. „Talið er að 50-80% af bindingu gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu megi rekja til sjávarþörunga. Það má því segja að sjávarþörungar eru lungu jarðar,“ segir Sigurður. Hann segir nauðsynlegt að hér verði byggðir upp innviðir svo hér geti skapast tækifæri til uppbyggingar á þörungarækt í sjó. Með uppbyggingu innviða vísar Sigurður meðal annars til skipulags- og leyfismála. Þeir sem hafi reynt sig við þessa grein hafi rekist á alls kyns hindranir. Ekki liggur ljóst fyrir hver hafi með málin að gera, hvort leggja megi út línur, hvort hefja megi ræktun á tilteknu svæði og hvort leyfi fáist fyrir hinu og þessu.
„Í samanburði við aðrar þjóðir erum við mjög aftarlega á merinni. Allt sem viðkemur þörungaræktun er víðast orðinn hluti af menntakerfinu. Árið 2011 var fræðsla um sjávarþörunga sett inn í námskrá í Noregi. Fræðsla af þessu tagi fer líka fram í Færeyjum og víðar. Þetta er forsendan fyrir því að almenn umræða geti orðið um greinina,“ segir Sigurður.

Í Samtökum þörungafélaga eru aðilar sem stunda sjálfbæra öflun þörunga sem getur orðið mikilvæg efnahagsleg stoð ásamt ræktun þörunga. Þar má nefna fyrirtæki í sjálfbærri öflun eins og Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum, með hálfrar aldar reynslu, ISEA í Stykkishólmi sem hóf sína starfsemi með öflun sjávarþörunga og hefur síðustu þrjú ár byggt upp fullvinnslu sjávarþörunga.
Á Ólafsfirði hefur fyrirtækið Norðanþari hafið öflun og vinnslu stórþörunga og Íslandsþari einnig verið í öflun og vinnslu. Sigurður minnir á nýlega skýrslu um lagareldi sem Boston Consulting Group vann fyrir matvælaráðuneytið þar sem niðurstaðan er sú að gríðarlegir möguleikar séu á þessu sviði fyrir Íslendinga með verulegum efnahagsleg um áhrifum í útflutningsverðmætum og fjölgun starfa.

Landræktun smá- og stórþörunga
Umtalsverð smáþörungaræktun fer fram á landi hérlendis og má þar nefna fyrirtæki eins Algalíf í Keflavík, Vaxa á Hellisheiði og Mýsköpun við Mývatn. Dæmi um fyrirtæki sem stunda stórþörungarækt á landi eru Hyndla, sem í mörg ár hefur verið í rannsóknum og þróun ræktunar á rauðþörungum, og Lava Seaweed, samstarfsverkefni Íslendinga og færeyska fyrirtækisins Ocean Rainforest. Færeyska félagið er það stærsta í Evrópu í sjóþörungarækt en samnorræna verkefnið Circle Feed sem Lava Seaweed stýrir snýst um ræktun rauðþörunga og sala sem nýtt eru til framleiðslu fæðubótarefna og fóðurbætis fyrir jórturdýr.
Þörungarækt í lífrænum úrgangi
Lava Seaweed er einnig í samstarfi við landeldisfyrirtækið First Water í Þorlákshöfn, sem stefnir að 50.000 tonna ársframleiðslu á laxi, um samstarf um fjölrækt við landeldisstöðina. „Þar erum við að tala um ræktun á sölum og fjörugrösum sem nærast á lífrænum úrgangi úr landeldi First Water. Við erum farnir að selja afurðir og uppskerum nú í okkar tilraunakerfi á milli 30 til 40 kg á tveggja vikna fresti og ræktunin fer vaxandi. Við gerum verðmæti úr úrganginum og minnkum um leið umhverfisspor landeldisins. Staðreyndin er sú að þegar eitt tonn af laxi er framleitt á landi verður til eitt tonn af lífrænum úrgangi,“ segir Sigurður sem er einn af stofnendum Lava Seaweed. 50% af lífræna úrganginum er í föstu formi sem hægt að safna saman og nýta til framleiðslu á lífgasi eða áburði. Annað er í uppleystu formi sem nýtist sem fóður fyrir rauðþörungana í fjölrækt með landeldi á laxi.