Bandaríkin eru þriðja stærsta viðskipta land Íslendinga með sjávar- og eldisafurðir og hefur útflutningurinn ríflega tvöfaldast á síðustu tíu árum. Sjávarafurðir frá Íslandi til Bandaríkjanna eru almennt tollfrjálsar en samkvæmt samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, kunna viðskipti að raskast ef tollar hækka á erlendar vörur almennt.

„Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki fylgist náið með þróun tollamála í Bandaríkjunum en þar gætu orðið ýmsar áskoranir eða tækifæri,” segir í samantekt SFS.

Flutt út fyrir 46 milljarða

Bandaríkin hafa lýst því yfir að 25% tollar verði lagðir á allar vörur frá Evrópusambands ríkjunum en óvíst er hvort EES-ríkin, þar á meðal Ísland og Noregur, falli þar undir. Í minnisblaði SFS segir að árið 2024 hafi verið fluttar út sjávar- og eldisafurðir til Bandaríkjanna fyrir 46 milljarða króna.

Vægi Bandaríkjanna í þessum útflutningi hafi stóraukist og var 12% í fyrra samanborið við 6% áratugi fyrr. Bandaríkin eru þriðja stærsta viðskiptaland Íslands fyrir þorskafurðir og annað stærsta fyrir ýsu. Fersk flök eru fyrirferðarmest í útflutningnum. Bandaríkin borga líka betur fyrir þessa vöru en önnur lönd.

Meðalverð til Bandaríkjanna fyrir fersk, roðflett þorskflök í bitum á síðasta ári voru á 2.430 kr./kg en meðalverð fyrir önnur svæði var 2.228 kr./kg og munar þar um 9% í verði. Enn meiri mismunur er á verði fyrir fersk, roðflett þorskflök, sem er 17% hærra og 23% hærra fyrir sjófryst, blokkfryst þorskflök.

Annað stærsta viðskiptalandið fyrir lax

Útflutningsverðmæti eldisafurða hefur þó farið lækkandi síðastliðin tvö ár. Þau námu 11,1 milljarði 2022, 8,2 milljörðum 2023 og 7,8 milljörðum í fyrra.

„Þá hefur, með aukinni framleiðslu hér á landi, hlutdeild lax aukist til muna undanfarin fimm ár. Bandaríkin hafa að jafnaði verið annað stærsta viðskiptalandið fyrir lax og það fimmta stærsta fyrir frjóvguð laxahrogn,“ segir í minnisblaðinu.

Útflutningur á eldislaxi til Bandaríkjanna árið 2019 var 1.467 tonn af 26.957 tonna framleiðslu en var 5.481 tonn í fyrra af 49.253 tonna framleiðslu. Rúmlega 80% af útflutningsverðmætum lax til Bandaríkjanna voru slægður lax með haus. Meðalverð fyrir ferskan, heilan eldislax til Bandaríkjanna var á síðasta ári 1.091 kr. en meðalverð fyrir önnur svæði var 3% hærra, 1.123 kr. Bandaríkin hafa einnig löngum verið langstærsta viðskiptaland Íslands fyrir eldisbleikju.