Óskar Pétursson rafmagnsverkfræðingur og Páll S. Helgason róbótaverkfræðingur bættust í hluthafahóp Klaka ehf. seint á síðasta ári og gengu þá til liðs við Berg og Lárus Ólafssyni. Ýmsar nýjungar sem tengjast sjálfvirknivæðingu eru á teikniborðinu og verða kynntar á næstu mánuðum og misserum.
Fyrirtækið var stofnað fyrir 48 árum og sérhæfir sig í framleiðslu á ryðfríum tækjum og búnaði fyrir sjávarútveg og aðrar greinar. Stærsta verkefnið um þessar mundir er smíði á búnaði í millidekk Baldvins Njálssonar GK, nýsmíði Nesfisks.
Klaki smíðar allt á millidekkið alveg frá móttöku að flokkun. Þar er um að ræða snyrtilínur, flokkunarkör, fiskidælur og fleira. Allt úr ryðfríu stáli. Þetta er stærsta verkefni Klaka frá því þeir félagar komu inn í fyrirtækið. Hausunar- og flökunarvélarnar eru frá Curio, flokkari kemur frá Marel og frystitækin frá Optimar. Fiskidælurnar voru þróaðar af Klaka og hefur verið stöðug og góð söluvara hjá fyrirtækinu.
Fjölgað úr 7 í tólf
Allan tímann hefur Klaki verið með framleiðslu í einlyftu húsi á Kársnesinu í Kópavogi og nýlega fengu þeir sem nágranna hátæknifyrirtækið Völku sem framleiðir hátæknivæddan búnað fyrir landvinnslu og skip. Frá því að Óskar og Páll komu að fyrirtækinu hefur starfsmönnum fjölgað úr 7 í tólf.
„Klaki hefur verið nýjungagjarnt fyrirtæki í sjávarútvegi öll þessi ár. Fyrirtækið hefur hannað fjölda lausna og sérvara. Þrátt fyrir þetta er staðan sú að fáir þekkja til Klaka nema þeir sem hafa haft bein viðskipatengsl við fyrirtækið. Engu að síður hefur ekki verið verkefnaskortur hjá Klaka frá því fyrirtækið var stofnað fyrir 48 árum,“ segir Óskar og bætir því við að til standa að færa fyrirtækið nær viðskiptavinum og iðnaðinum með meiri nærveru, t.a.m. á netinu. Jafnframt séu ýmsar lausnir á tækniborðinu sem eru sérsniðnar fyrir sjávarútveginn og sjá þeir félagar fram á bjarta tíma.
Meðal þess sem stefnt er að er að hanna og smíða sjálfvirknibúnað af ýmsu tagi. Páll er sem fyrr segir róbótaverkfræðingur og Óskar rafmagnsverkfræðingur með áherslu á róbóta. Þeirra framlag til þess búnaðar sem Klaki hefur framleitt er stýribúnaður, t.a.m. hugbúnaður sem keyrir færibönd og fleira í þeim dúr, sem áður var fenginn frá öðrum framleiðendum.
Fimmföldun í afköstum
„Við ætlum að bjóða líka upp á róbóta og sjáum mörg tækifæri þar. Myndavélabúnaði og gervigreind fleygir fram sem er búnaðurinn sem stjórnar róbótum. Það hefur verið mikil tækniþróun innan sjávarútvegsins og sérstaklega í landvinnslunni. Framleiðsla mæld í kílóum á hvern starfsmenn var um 20 kg á klst fyrir nokkrum árum. Nú er hún orðin um 100 kg. En ennþá er töluvert af einhæfum störfum sem erfitt er að manna. Dæmi um þetta eru störf við innmötun inn á vinnslulínur eða innmötun inn á vinnsluvélar og innröðun á lausfrysta. Vinnslan er ekki sjálfvirk fyrr en hún er orðin mannlaus,“ segir Páll.
Hönnun róbóta sem leysa mannshöndina af hólmi við þessi störf er langt á veg komin hjá Klaka.
Óskar og Páll eru báðir einnig vélstjórar og hafa verið til sjós. Þeir þekkja því umhverfið í sjávarútvegi og vita hvar hægt er að sækja fram. Þeir eru nú að þróa lausn sem léttir störf sem tengjast færslu á tómum körum í lestum. Um er að ræða einfaldari útfærslu á sjálfvirkum lestum sem þekkjast m.a. úr nýjum skipum Brims. Frumgerð hefur verið smíðuð og prófuð úti á sjó. Körin sjálf vega 40-50 kg og færsla á þeim í lest er slítandi vinna. Klaki stefnir að því að bjóða þessa lausn í lok næsta árs.