Sjálfbærar ýsuveiðar gætu orðið snar þáttur í markaðssetningu hjá fish and chip stöðum í Bretlandi þar sem skoskar ýsuveiðar hafa hlotið vottun í samræmi við staðla MSC.
Fulltrúar aðila í skoskum sjávarútvegi, sem hafa beitt sér fyrir því að fá veiðarnar vottaðar (The Scottish Fisheries Sustainable Accreditation Group), fagna þessum áfanga. Þeir segja að nú geti skoskir fiskimenn sýnt kaupendum fram á svart á hvítu, einkum verslunarkeðjum en einnig fish and chip stöðum og fleirum, að þeir veiði fisk sem uppfylli öll ströngustu skilyrði. Innan þessa hóps er útgerðarmenn 192 báta sem veiða um 27.500 tonn af ýsu árlega í Norðursjó. Megnið er selt á markaði í Evrópu.
Fyrstu MSC vottuðu ýsuafurðirnar verða seldar hjá Marks og Spencer. Frá og með 3. nóvember verður hægt að kaupa þar sjálfbæra reykta ýsu. Heimild: www.fis.com