„Svartfuglinn er ekki einungis einn af boðberum vorsins heldur gefur hann einnig góð fyrirheit um að loðnan sé að nálgast landið,“ segir í færslu á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum þar sem fram kemur að svartfugl sé sestur upp í Ystaklett.

Segir í færslunni að Sig­ur­geir Jónas­son, ljós­mynd­ari og fugla­áhugamaður, fylgist vel með fuglalífi. Það hafi hann gert í að verða þrjá aldarfjórðunga og tekið í því við keflinu af föður sínum sem hafi haft sömu iðju uppi í áratugi.

Tveir fuglar með bringuna fram

„Í ferð sinni austur á Eyju í morgun tók Sigurgeir upp kíkinn til að kanna bergið í Ystakletti. Viti menn, þar sá hann svartfuglinn sestan upp. Sig­ur­geir sá svart­fugla sitja á þrem­ur til fjórum syllum rétt austur af Klettshelli,“ segir í færslunni sem birt var á vsv.is í gær. „Það stóðu tveir fuglar með bringuna fram, sem er fátítt. Yfirleitt snúa þeir bringunni að berginu,” er haft eftir Sigurgeiri.

Sem fyrr segir er svartfuglinn talinn gefa góð fyrirheit um að loðnan sé að nálgast landið. Sigurgeir hafi haldið dagbækur í áratugi og skrái meðal annars hjá sér hvenær svartfugl sest upp í bergið í Ystakletti. Það gerist venjulega nálægt miðjum febrúar og megi því segja að fuglinn sé nokkurn veginn á réttu róli.

Spyr um leitarskip

Í samtali við fréttaritara VSV spyr Sigurgeir hvar leitarskipið sé. „Þeir þurfa ekki að leita nema frá Hornafirði til Eyja að loðnunni,” segir hann. Í gegn um tíðina hafi loðnu orðið vart fljótlega eftir að svartfuglinn er sestur upp. „Flotinn var oft að veiðum suður af Eyjum inn af Elliðaey um það bil viku eftir að fuglinn settist upp,“ er haft eftir honum.

„Það verður því spennandi að fylgjast með loðnumælingum næstu dagana við sunnanvert landið,“ segir á vef Vinnslustöðvarinnar. Eins og fram kom á vef Fiskifrétta í morgun er loðnuleiðangur hafinn norðvestur af landinu og leita á þaðan og að Langanesi.