Sigurður H. Þórólfsson gullsmiður á líklega eitt sérstæðasta og glæsilegasta safn skipalíkana á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Í gegnum áratugina hefur hann lagt sig eftir því að gera líkan af þekktum skipum, jafnt innlendum sem erlendum, og efnisviðurinn er málmur, góðmálmur, dýrir steinar og mannshár, svo fátt eitt sé nefnt. Það sem einkennir líkön Sigurðar er að í öllum tilvikum er um að ræða sjólínuskip. „Ástæðan er sú að við sjáum skipin alltaf á sjó og þannig vil ég að mín skip birtist öðrum,“ segir Sigurður.
Langur starfsferill er að baki hjá Sigurði. Meðfram öðrum störfum hefur hann sinnt módelsmíði skipa úr silfri frá árinu 1981. Hann hefur haldið fjölda sýninga á smíðagripum sínum og unnið til verðlauna og viðurkenninga á erlendum vettvangi.
Meðal dýrgripa í safni Sigurðar er skip frá 16. öld, Adler von Lubeck sem er eitt hið elsta í safni hans. „Þetta var gríðarlega stórt herskip. Það voru eitt þúsund manns í áhöfn þess. Hansakaupmenn höfðu þetta skip í sinni þjónustu til að verjast Austur-Evrópuþjóðum sem sóttu að veldi þess,“ segir Sigurður. Hann segir að í eitt svona skip hafi farið 4-5 þúsund eikartré. Skip af þessu tagi gerir hann eftir nákvæmum teikningum og hann þurfti meðal annars að læra í grunnatriðum hvernig seglreiði er samsettur meðan á smíðinni stóð.
Týr úr silfri, gulli og demöntum
Sigurður hafði á sínum tíma hug á því að gera líkan af varðskipinu Tý en vantaði teikningar. Þá var honum innan handar Hannes Hafstein, þáverandi formaður Slysavarnafélags Íslands. Hann ræddi við Helga Hallvarðsson skipherra og í framhaldinu fékk Sigurður bæði teikningar og myndir af skipinu. Sigurður Einarsson, byggingafræðingur og skipasmíðameistari, hefur reynst Sigurði mjög hjálpsamur í gegnum tíðina. Hann fór um borð í Tý og myndaði skipið í bak og fyrir. Týr er í hlutföllunum 1:300. Í sömu hlutföllum yrði fullvaxinn maður 6 millimetrar. Smíði slíks skips er mikil nákvæmnisvinna og má ekki muna nema broti úr millimetra til þess að heildarmyndin skekkist. Skrokkur Týs er úr silfri, gull og demantar eru í kösturunum í brú skipsins. Í lanternum eru rúbín og smaragður.
Sigurður kveðst hafa verið um 600 tíma að smíða Tý og jafnmarga tíma hefði það tekið að hugsa smíðina. Ástæðan er sú að hann var frumkvöðull á þessu sviði. Enginn annar á Íslandi hafði lagt fyrir sig smíði af þessu tagi og því hvergi þekkingu að sækja. Verkfæri Sigurðar við þessa smíði eru örlitlir fræsarar og borar, stækkunargler, styrkar hendur og óbilandi áhugi. Minnstu borarnir eru svo smáir að hann sér ekki hvernig hann á að snúa nema með sterku stækkunargleri. Borarnir sem hann notaði hvað mest við smíðina á Ingólfi Arnarsyni og Tý eru með þvermál upp á 0,3 millimetra. Hann segir að ótrúlega sjaldan hafi orðið óhöpp við smíðina og þá sjaldan það gerðist átti hann það til að verða forn í skapi.
Um það hvað Týr myndi kosta væri hann til sölu segir Sigurður einungis: „Hann yrði dýr.”
Loftnet úr hári
„Kveikjan að þessum áhuga mínum á skipum er Vasa skipið sem var bjargað af hafsbotni 1961. Vasa skipið var sænskt herskip byggt á árunum 1626 til 1628 og fórst í jómfrúarferðinni. En svo voru líkönin farin að taka svo mikið pláss og tíma að ég fór að sameina gull- og silfursmíðina skipasmíðinni. Ég hef alltaf haft mun meiri ánægju af skipasmíðinni en skartgripasmíði,” segir Sigurður.
Hann hefur tekið þátt í sýningum módelsmiða á Englandi fjórum sinnum og unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Þar sýndi hann m.a. síðutogarann Ingólf Arnarson. Skrokkur hans er húðaður ródíni og ólíkt silfri fellur ekki á það.
„Loftnetin á skipinu eru gerð úr hári af dóttur minni. Það var dálítið mál að vinna með það vegna smæðar hárþráðanna,“ segir Sigurður.
Þá er að nefna gamla Gullfoss sem Sigurður smíðaði í hlutföllunum 1:400. Gullfoss var smíðaður 1915. Hann var fyrsta skip Eimskipafélags Íslands.
Um leið var hann fyrsta vélknúna millilandaskip Íslendinga. Í skipinu var rými fyrir 74 farþega og sigldi skipið með fólk og varning, ýmist milli Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og Evrópu, auk þess að stunda strandsiglingar hér. Gullfoss varð innlyksa í Danmörku við hernámið 1940 og var undir yfirráðum Þj óðverja til stríðsloka. Þá fannst skipið illa farið í Kiel og var selt til Færeyja þar sem það nefndist Tjaldur. Gullfoss var rifinn 1953 í Hamborg í Þýskalandi.
Annað líkan sem Sigurður lauk við að smíða síðasta vetur er Gunnar Hámundarson GK 357. Fyrirmyndin er enn á floti. Skipið gerði Sigurður eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Bæði Gunnar Hámundarson og gamli Gullfoss eru á spegli og eru smíðuð hálf en með speglunum sýnast þau heil. Sem dæmi um þá gríðarlegu nákvæmnisvinnu sem liggur að baki má nefna að stýrið eitt í Gullfossi er gert úr fjórtán hlutum.