Síldveiðum skipa HB Granda er lokið á þessu ári en Lundey NS er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með síðasta farm vertíðarinnar, um 800 tonna afla. Í morgun var lokið við að landa úr Faxa RE á Vopnafirði en aflinn í síðustu veiðiferð skipsins á síldveiðunum var um 900 tonn.

Alls máttu skip HB Granda veiða um 4.800 tonn af íslenskri sumargotssíld á vertíðinni og eftirstöðvar kvótans eru nú um 300 tonn sem færð verða yfir á næsta ár.

Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa, segir í frétt á heimasíðu HB Granda að veiðarnar hafi gengið vel í síðustu veiðiferðinni en umrædd 900 tonn fengust í tveimur köstum skammt frá landi beint út af kirkjunni í Stykkishólmi.

,,Síldin hefur aðallega verið að veiðast í sundunum, s.s. í Kiðeyjarsundi, en þar var ekkert að sjá að þessu sinni. Hins vegar töluvert magn af síld þar sem við köstuðum. Aðstæður þarna eru mjög erfiðar á inn- og útfalli og straumurinn hvergi meiri. Í fyrra kastinu var straumhraðinn 1,8 míla á klukkustund en síðan köstuðum við aftur á liggjandanum og þá var mun auðveldara að athafna sig,“ segir Albert Sveinsson en Faxi kom til Vopnafjarðar með aflann sl. miðvikudagsmorgun.

Nú þegar síldveiðum er lokið horfa menn til loðnuveiða en enn er óvíst hvenær skip HB Granda fara til loðnuleitar.