,,Við erum komnir hérna djúpt norður fyrir Langanesið á flótta undan makrílnum. Áður vorum við að veiðum miklu sunnar, úti af Seyðisfjarðardýpinu og Reyðarfjarðardýpinu, en hlutfall makríls í aflanum var svo hátt að við urðum að flýja,” sagði Sigurbergur Hauksson skipstjóri á Berki NK frá Neskaupstað þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans síðdegis í gær.
Þar sem lítið er eftir af makrílkvótanum má meðafli makríls á síldveiðum ekki fara yfir 12% miðað við nokkra vikna tímabil í senn. Sigurbergur sagði að makríll í afla síldarskipanna á syðra svæðinu hefði farið upp í 40-50% og í einstaka tilfellum enn hærra. Því hefði verið þörf á að færa sig norðar til þess að rétta stöðuna af hvað þetta varðaði. Á norðursvæðinu er hins vegar hrein síld, enginn makríll.
Börkur NK dregur tvíburatroll á móti Birtingi NK en vegna brælu voru þeir ekki farnir að athafna sig í gær. Sigurbergur sagði að síldin lægi alveg uppi í yfirborðinu og því þyrfti gott veður til að fanga hana. Norðar á svæðinu voru Faxi RE og Lundey NS saman með eitt troll og höfðu fengið 400 tonn af síld í það.