Undir lok síðustu viku voru 32 bátar komnir með leyfi til síldveiða í lagnet en hver bátur má veiða átta tonn á viku að hámarki.

,,Veiðarnar hafa gengið mjög vel þannig að það gengur hratt á þau 500 tonn sem úthlutað hefur verið veiðanna nú í upphafi. Ég reikna því með að aukið verði við þann skammt því heimilt er að úthluta allt að 2.000 tonnum í þessu skyni,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS í samtali við Fiskifréttir.

,,Karlarnir þurfa að greiða 13 króna leigugjald fyrir hvert kvótakíló en þeir fá um 85 krónur á kílóið fyrir síldina sem er tvöfalt miðað við það sem uppsjávarflotinn fær,“ heldur Örn áfram. ,,Allt að fimm fiskvinnslur koma til með að vinna síldina. Hjá Agustson í Stykkishólmi er þegar byrjað að taka á móti síld og ég hef heyrt að fjórar aðrar vinnslur ætli að sinna þessu verkefni, Frostfiskur, Stormur Seafood, Jón Ásbjörnsson og Sjávariðjan á Rifi.“

Örn sagði að ef áðurnefnd 2.000 tonn veiðist skili það 170 milljónum króna í aflaverðmæti og 26 milljónum í leigugjald til ríkisins.