Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gær með rúmlega 1.000 tonn af síld sem fékkst vestur af landinu. Vinnsla á aflanum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar strax þegar skipið lagðist að bryggju.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt og hvernig veiðarnar hefðu gengið.

„Við vorum að veiðum í Kolluálnum. Aflinn fékkst í fjórum holum og það var yfirleitt dregið í kringum tíu tíma. Síldin sem þarna fæst er góð. Meðalvigtin er um 300 grömm og hún virðist vera vel haldin. Þarna hegðar síldin sér með óvenjulegum hætti en segja má að hún liggi á botninum. Þarna fengist enginn afli í nót. Til að fá einhvern afla þarf að draga trollið nánast klesst við botninn. Þetta er vandasamt og ef menn gleyma sér eitt augnablik er hætta á að veiðarfærið festist í botni og þá fer það illa. Fyrir utan þessa óvenjulegu hegðun síldarinnar þá hefur veðrið ekki verið neitt sérstakt á þessum slóðum,” sagði Sigurður.

Trollið þarf að draga við botn til að fá einhvern síldarafla. Mynd/Guadalupe Laiz
Trollið þarf að draga við botn til að fá einhvern síldarafla. Mynd/Guadalupe Laiz

Gert er ráð fyrir að Beitir haldi til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu að löndun lokinni.

Þegar vinnslu á síldinni úr Beiti lýkur verður Börkur NK væntanlega kominn með síld til Neskaupstaðar en hann er á austurleið af miðunum fyrir vestan með rúmlega 1.440 tonn.