Veiðum uppsjávarskipa Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð er lokið. Beitir NK kom með síðasta farm vertíðarinnar til Neskaupstaðar í dag og fer hann allur til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri fyrirtækisins.
Rætt er við Sigurð Valgeir Jóhannesson, skipstjóra á Beiti, á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Hann var spurður hvernig þessi lokaveiðiferð vertíðarinnar hefði gengið.
„Hún gekk ágætlega. Aflinn er 1.140 tonn og fékkst hann í fjórum holum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var dregið í einn og hálfan til fjóra tíma. Við byrjuðum fyrst á að leita og það var víða síld að sjá en þarna í Seyðisfjarðardýpinu var hún í töluverðu magni. Síldin er brellin og alltaf á ferðinni, hún birtist og hverfur. Það er ljóst að nú er norsk-íslenska síldin farin að ganga frá landinu. Næst á dagskrá er að fara að huga að íslensku sumargotssíldinni,” segir Sigurður.