Hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað nam 5,6 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er um 1,4 milljörðum krónum minna en árið 2012.

Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að rekstrartekjur Síldarvinnslunnar námu 23,6 milljörðum króna borið saman við 24 milljarða árið 2012 og rekstrargjöld 16,2 milljörðum króna samanborið við 14,3 milljarða ári fyrr. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og gjöld (EBITDA) 7,4 milljörðum króna í fyrra borið saman við 9,6 milljarða árið 2012.

Þá segir í tilkynningunni að fjármagnsliðir voru jákvæðir um 168 milljónir króna.

Hagnaður samstæðu Síldarvinnslunnar fyrir reiknaða skatta nam 6,9 milljörðum króna í fyrra borið saman við 8,6 milljarða árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri Síldarvinnslunnar að útgerð félagsins gekk vel á árinu. Á vef fyrirtækisins segir að afli bolfiskskipa samstæðunnar var 15.500 tonn, aflaverðmæti 3.910 milljónir króna. Afli uppsjávarskipa var 128 þúsund tonn, aflaverðmæti 4.675 milljónir. Heildaraflaverðmæti skipa var 8.600 milljónir króna og aflamagn 143.000 tonn á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti um 206 þúsund tonnum af hráefni á árinu 2013. Framleidd voru 41 þúsund tonn af mjöli og 15 þúsund tonn af lýsi. Samtals voru þannig framleidd 56 þúsund tonn af mjöli og lýsi á árinu og verðmætið um 11.554 milljónir króna.

Í fiskiðjuverið var landað rúmum 80 þúsund tonnum af hráefni. Framleiddar afurðir voru 41.000 tonn. Þar vega loðnuafurðir þyngst og síðan síldarafurðir og loks makrílafurðir.  Verðmæti framleiðslunnar var 6.880 milljónir króna.

Um frystigeymslurnar fóru 85 þúsund tonn af afurðum á árinu.

Samtals framleiðsla á afurðum nam 101.000  tonnum á árinu 2013 að verðmæti tæplega 20 milljarðar króna.