Aðalfundur Síldarvinnslunnar var haldinn í gær. Fyrirtækið skilaði 6,2 milljarða króna hagnaði eftir skatt á árinu 2015.  Opinber gjöld af starfsemi fyrirtækisins og starfsmanna þess námu 5,1 milljarði króna. Eigið fé fyrirtækisins í árslok var 33,7 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 62%. Á fundinum var samþykkt að greiða 15 milljónir USD [tæpa 1,9 milljarða ISK] í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2015.

Samtals námu fjárfestingar félagsins 5,4 milljörðum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins ásamt því að bæta aðbúnað og öryggi starfsmanna. Helstu fjárfestingarnar voru kaup á nýju uppsjávarveiðiskipi frá Danmörku, Beiti NK 123. Eins var haldið áfram á braut uppbyggingar í uppsjávarvinnslu félagsins. Reist var viðbygging austan við fiskiðjuverið og er sú bygging liður í að auka afköst vinnslunnar í 900 til 1.000 tonn á sólarhring.

Afli skipa samstæðunnar var 155 þúsund tonn. Fiskimjölsverksmiðjur félagsins tóku á móti 263 þúsund tonnum af hráefni. Fiskiðjuverið tók á móti 52 þúsund tonnum af hráefni til frystingar.Um frystigeymslur félagsins fóru 70 þúsund tonn af afurðum. Framleiddar afurðir voru 115 þúsund tonn.

Sjá nánar á vef SVN