Síldveiðiskipin Birtingur NK og Börkur NK komu til Neskaupstaðar í gærmorgun og er þar með veiðum þeirra lokið fyrir jól. Birtingur var með 320 tonna afla og Börkur með rúmlega 400 tonn en allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
Skipin hafa að undanförnu verið að veiðum í Breiðamerkurdýpi og hefur veiðin yfirleitt verið dræm. Þá hefur síldin sem þar hefur veiðst verið mun smærri en sú síld sem fengist hefur í Breiðafirði, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.