Nú hafa skip Síldarvinnslunnar veitt 2/3 þess loðnukvóta sem þau hafa fengið úthlutað á vertíðinni, að því er fram kemur á vef fyrirtækisins. Veiðin hefur gengið vel til þessa en nú hefur verið hægt á skipunum og áformað að veiða mest af þeirri loðnu sem eftir er til framleiðslu á verðmætustu afurðunum (Japansfrysting)

Gefið verður helgarfrí í fiskiðjuverinu í Neskaupstað um þessa helgi og lýkur þar með 12 daga samfelldri framleiðslutörn.

Í samtali við Þorstein Sigurðsson fiskifræðing hjá Hafrannsóknarstofnun kom fram að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson væri við loðnuleit austur- og norðaustur af landinu. Síðan yrði leitað úti fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum.

Enn vonast menn til að meiri loðna finnist í hafinu svo unnt verði að bæta við vertíðarkvótann, segir á vef Síldarvinnslunnar .