Þegar Hafrannsóknastofnun birti ráðgjöf sína fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 um miðjan júní í fyrra varð ekki mikillar bjartsýni vart um stöðu síldarstofnsins, og þá ekki síst með tilliti til sýkingarinnar. Þá sagði að mat „… á sýkingarhlutfalli sumargotssíldar af völdum frumdýrsins Ichthyophonus í aflasýnum vetrarins sýna álíka hátt hlutfall og síðasta vetur, og nýsmit eru enn í gangi.“ Þá var tiltekið að sýkingarhlutfall var allt að 29% fyrir fjögurra ára síld og eldri, en lægra fyrir tveggja og þriggja ára gamla síld.

Það sem hefur þó breyst síðan að ráðgjöfin var birt er að veiði úr 2017 árganginum er hafin. Drýgstu upplýsingar sem Hafrannsóknastofnun berst um sýkinguna er frá sýnum úr afla síldarsjómanna og ber svo við á veiðum í haust að sýkingin mælist áþreifanlega minni en í eldri árgöngunum sem enn veiðist úr.

Guðmundur J. Óskarsson, fiskifræðingur og sviðsstjóri uppsjávarsviðs á Hafrannsóknastofnun, útskýrir að haustið 2020 var 2017 árgangurinn ekki kominn inn í veiðina og því ekki mikið af sýnum til að meta sýkingarhlutfallið.

  • Síld úr Breiðamerkurdýpi við rannsóknir Hafrannsóknastofnunar, en myndin sýnir hversu mjög hún er blönduð þar sem hún heldur til. Mynd/Hafrannsóknastofnun

„Hann var hins vegar kominn inn í veiðina nú í haust. Það eru ennþá einhver óunnin aflasýni hjá okkur svo ég vil ekki segja of mikið um niðurstöður strax, en get sagt að sýkingarhlutfallið í þessum árgangi virðist ennþá vera lágt sem er í samræmi við það sem sjómenn sögðu í haust. Ástandið er því að lagast áfram. Við greinum hins vegar áfram hátt sýkingarhlutfall í eldri árgöngum, en það þarf ekki að vera virkt smit og eins vitum við að dánartíðni sökum sýkingar er lægra en upphaflega ætlað, eða um 30% á ári samkvæmt síðasta mati,“ segir Guðmundur en eins og staðan er núna er sýkingarhlutfallið í 2017 árganginum rétt rúm sex prósent. Sögulega, og sérstaklega þegar verst lét, er það lágt hlutfall og vekur vonir um að loksins sjái fyrir endann á sýkingunni sem hefur höggið djúp skörð í stofninn.

Sýking að fjara út?

Í nýlegri ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma gætir bjartsýni en hann metur stofninn með hliðsjón af veiðinni á síðustu vertíð.

Þar er skrifað: „Mikil vonbrigði urðu þegar staðfest var nýsmit í ungsíld fyrir norðan land árið 2016 og leit út fyrir að ný bylgja smits væri hafin og sýkingarhlutfall í nýjum árgöngum sem voru að koma inn í veiðistofninn var fremur hátt. Ekki var á þessum tíma vitað hvað þessi breyting þýddi til lengri tíma en menn óttuðust afföll í nýjum veiðiárgöngum. Þessi þróun raungerðist sem betur fer ekki og haustið 2021 komu fram vísbendingar um að sýking sé loks að fjara út. Yngsti árgangur inn í veiðar, 2017-árgangurinn, er sterkur og þá líta næstu árgangar 2018 og 2019 vel út.“

  • Sníkjudýrið borar sig í gegnum meltingaveginn og dreifist með blóðrásinni um líkama fisksins. Sýkingin veldur blæðingum og skemmdum í líffærum sem leiða oft til dauða. Greining sýkingarinnar er handhæg á hjartavöðva þar sem einkenni myndast við sýkingu. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Rifja má upp að góð nýliðun var í síldarstofninum árin áður en sýkingarinnar varð vart. Góð nýliðun árin 1999–2002 leiddi þá til hámarks hrygningarstofns árin 2005 til 2008. Stofninn minnkaði svo ört vegna sýkingarinnar árin 2009 til 2011 og síðar eftir árið 2016 þegar sýking í ungsíld tók sig upp. Jafnframt áttu litlir árgangar eftir 2004 og síldardauði í Kolgrafafirði veturinn 2012/2013 sinn þátt í minnkun stofnstærðar. Árgangurinn frá 2017 þýddi hins vegar að aflamark í síld jókst stórum á milli ára við síðustu ráðgjöf; var 35.500 tonn fiskveiðiárið 2020/2021 en var 72.200 tonn á þessari vertíð, sem er 104 prósent hækkun á milli vertíða.

Slæm staða árið 2011

En hverfum stuttlega aftur til ársins 2011 þegar Hafrannsóknastofnun gerði út sérstakan leiðangur til að meta sýkinguna í síldinni sem þá hélt sig inni á Breiðafirði. Þá var sýkingin að jafnaði um 40 prósent.

„Hlutfall sýktra sílda var svipað í torfunum í Kolgrafarfirði og Hofstaðavogi, 43% og 40%, lægri í Hofstaðavogi. Hins vegar var 80% síldarinnar sem veiddist í Grundarfirði sýkt og hlutfall mjög sýktrar síldar var hátt. Þegar niðurstöður úr leiðöngrum sem farnir hafa verið og sýnum sem tekin voru úr afla veiðiskipa á vertíðinni haustið 2010 og í janúar 2011 eru skoðaðar, sést að hlutfall sýktra sílda breytist lítið á þessu tímabili. Að jafnaði voru um 40% síldanna sýkt, í upphafi vertíðar var hlutfall sýktra um 38% en í síðasta leiðangri var 42% síldanna sem veiddar voru úr torfu sýktar. Þessar rannsóknir nú staðfesta fyrri mælingar um mikla sýkingu í stofninum. Eins og fram hefur komið eru engar vísbendingar um annað en að sýkingin valdi dauða hjá þeirri síld sem greinist með sýkingu. Hins vegar virðist það taka lengri tíma hér en á öðrum hafsvæðum þar sem faraldur vegna Ichthyophonus hefur greinst í síldarstofnum,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun á þeim tíma.

Stofninn lætur á sjá

Eins og Guðmundur bendir á hér að ofan er dánarhlutfall sýktrar síldar metið um 30%. Því er ljóst að nokkur hundruð þúsund tonn af síld hafa tapast út úr stofninum sýkingarinnar vegna. Þetta á þá sérstaklega við árin 2009-2011 og eftir að sýkingin blossaði aftur upp árið 2016 með tilheyrandi afföllum 2017. Minni sýkingardauði er talinn hafa orðið árin þarna á milli.

Talið var í upphafi að sýkt síld dræpist undantekningalaust eftir um 100 daga, en það hefur ekki gengið eftir hér við land og er væntanlega tengt umhverfislegum þáttum sem eru með öðrum hætti en annars staðar þar sem sýkingin hefur komið upp.

Við upphaf sýkingarinnar var viðmiðunarstofn síldarinnar allt að helmingi stærri en nú er, en hann er metinn um 442.000 tonn, samkvæmt nýjasta stofnmati Hafrannsóknastofnunar. Lægst var viðmiðunarstofn síldar (4 ára og eldri) metinn árið 244.000 tonn árið 2019.