Afli skipanna, sem hófu karfaveiðar á alþjóðlegu hafsvæði í Síldarsmugunni 1. september síðastliðinn, hefur verið sáratregur ef frá eru taldir fyrstu fimm dagarnir þegar nokkuð vel veiddist.
Afli á togtíma hefur lengst af verið um eða innan við hálft tonn, samkvæmt heimildum Fiskifrétta.
Nú í upphafi vikunnar hafði aðeins verið tilkynnt um 7.500 tonna afla en á sama tíma í fyrra var veiðum á 15.500 tonna kvóta lokið. Kvótinn í ár er 14.500 tonn.
Hátt í 30 skip hófu veiðarnar að þessu sinni, en nú í vikunni voru aðeins 18 skip eftir og búist var við að þeim myndi fara áfram fækkandi.
Íslenskar útgerðir kusu að nýta sér ekki þennan veiðimöguleika í ár vegna hás olíuverðs, lækkandi karfaverðs og óvissu um árangur veiðanna.
Svo virðist sem sú ákvörðun hafi verið rétt. Í fyrra veiddu ellefu íslensk skip samtals 1.750 tonn af karfa á þessum slóðum og í hittifyrra var afli Íslendinga 2.360 tonn.