Karfaveiðum á alþjóðlega hafsvæðinu í Síldarsmugunni, sem hófust 2. september síðastliðinn, er lokið án þess að útgefinn kvóti hafi náðst.
NA-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) ákvað 14.500 tonna heildarkvóta en þegar síðustu skipin gáfust upp á veiðunum um mánaðamótin og héldu á brott hafði hvergi nærri tekist að veiða kvótann.
Ekki fengust upplýsingar hjá NEAFC í gær um heildarveiðina, en kunnugir giska á að aðeins hafi tekist að ná 8-9 þúsund tonnum, samkvæmt heimildum Fiskifrétta.
Alls tóku hátt í 30 skip þátt í veiðunum sem fram fóru nyrst í Síldarsmugunni. Fyrstu fimm dagana voru aflabrögðin góð en síðan datt botninn úr veiðunum og aflinn glæddist ekki aftur.
Skipunum á miðunum fækkaði smám saman þegar leið á veiðitímann og eftir að rússneskt flutningaskip kom og sótti aflafenginn af rússnesku veiðiskipunum um mánaðamótin var veiðunum endanlega hætt.
Íslenskar útgerðir sendu ekki skip til þessara veiða í ár en í fyrra nam afli Íslendinga 1.750 tonnum og í hittifyrra 2.360 tonnum.
Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að engar veiðar yrðu leyfðar í ár og naut tillagan stuðnings Norðmanna og Íslendinga en Færeyingar, Rússar og ESB voru á móti og þess vegna gaf NEAFC út takmarkaðan kvóta.