Síldveiðar Norðmanna gengu sérstaklega vel í fyrra og var alls landað 1,15 milljónum tonna af norsk-íslenskri síld og norðursjávarsíld í Noregi það ár. Þetta magn svarar til þess að unnt hefði verið að reiða fram síldarmáltíð fyrir rösklega fjóra milljarða manna eða tvo af hverjum þremur jarðarbúum.

Mestur hluti síldarinnar var unninn til manneldis og nam verðmæti hennar upp úr sjó 2,9 milljörðum norskra króna eða jafnvirði 64 milljarða íslenskra króna.

Alls var landað um tveimur milljónum tonna af uppsjávarfiski á liðnu ári í Noregi, þar af komu 187.000 tonn af erlendum skipum. Aflaverðmæti nam samtals 5,7 milljörðum norskra króna eða sem svarar 1.250 milljónum íslenskra króna.

Síld var helmingur aflaverðmætisins eins og áður kom fram. Aflaverðmæti makríls nam 1,7 milljörðum NOK (374 milljarða ISK) en af honum var landað 205.000 tonnum í Noregi í fyrra.

Þrír fjórðu af uppsjávaraflanum í Noregi í fyrra fóru í vinnslu til manneldis en afgangurinn í bræðslu.