Sjávarútvegsherra hefur ákveðið í framhaldi af ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar að heildaraflamark í íslenskri sumargotssíld verði 45.000 tonn og eru þá meðtalin þau 5 þúsund tonn sem ráðherrann hafði áður úthlutað.
Þar af fara 2.000 tonn í sérstaka leiguúthlutun til smábáta og hafa 350 tonn þegar verið leigð út.
Í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu segir að rannsóknir Hafrannsóknarstofnunarinnar við Suður- og Suðausturland sumarið 2011 og haustið 2010 hafi sýnt að síld þar sé minna sýkt en síld við Vesturland og fullorðin síld sé blönduð smásíld. Í ljósi þessa sé ákveðið að vernda síld á þessum svæðum. Því sé veiði á sumargotssíld til bráðabirgða takmörkuð við Faxaflóa og Breiðafjörð eða svæði sem nær frá Garðskagavita að Bjargtöngum.