Færeyingar hafa svo gott sem lokið veiðum sínum á norsk-íslenskri-síld en nokkuð er eftir af makrílkvótanum. Í síðustu viku hafði verið tilkynnt um 116 þúsund tonna makrílafla en kvótinn er 141 þúsund tonn. Þetta kemur fram á vef færeyska sjónvarpsins.

Megnið af makrílnum var veitt í færeysku lögsögunni en 12.500 tonn í lögsögu ESB-ríkja og rúm 9 þúsund tonn á alþjóðlegu hafsvæði. Í lok vikunnar voru fjögur færeysk skip að makrílveiðum í lögsögu ESB.

Síldarkvóti Færeyinga var aukinn um 2 þúsund tonn í síðustu viku og er hann nú 24.420 tonn. Á fimmtudaginn í síðustu viku höfðu veiðst tæp 23 þúsund tonn af síld, þar af 2.600 tonn á alþjóðlegu hafsvæði.