Atvinnuvegaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um úthlutun 800 tonna kvóta af íslenskri sumargotssíld á yfirstandandi fiskveiðiári til skipa allt að 200 brúttótónn að stærð sem ekki stunda veiðar með vörpu, eins og það er orðað. Um er að ræða netaveiðar á síld, sem smábátar hafa fyrst og fremst stundað.
Heimilt er að úthluta allt að 8 tonnum í senn gegn greiðslu gjalds, sem er 16 krónur á kílóið og þarf hver bátur að veiða allt að 80% úthlutunarinnar áður en hann getur fengið næsta skammt. Ekki er heimilt að framselja þessar veiðiheimildir.
Til samanburðar má nefna að fyrir einu ári úthlutaði ráðuneytið fyrst 500 tonnum til þessara veiða og svo 200 tonnum til viðbótar.
Þegar óttast var síðla nóvembermánaðar í fyrra að síldin, sem tekið hafði sér bólfestu í Kolgrafafirði, myndi drepast í einhverjum mæli var gefinn út allt að 1.300 tonna kvóti til netabáta til þess að bjarga verðmætum frá glötun og fóru nokkrir smábátar þá þangað. Þegar hættan var liðin hjá var þessi veiðiheimild afturkölluð.