Norsk-íslenski síldarstofninn er á niðurleið og hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið mælt með því að heildarkvótinn á næsta ári minnki úr 833 þús. tonnum í 619 þús. tonn. Þetta þýðir að hlutur Íslendinga sem er 14,51% minnkar úr 120 þús. tonnum á þessu ári í 90 þús. tonn á því næsta.
Á fundi ráðgjafanefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem er nýlega lokið kom þetta m.a. fram um norsk-íslensku síldina:
Árgangarnir frá 1998, 1999 og 2002-2004 voru allir stórir, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003 og náði hámarki árið 2009, um 9 milljón tonn. Rúm 52% af hrygningarstofninum árið 2012 tilheyrir árgöngunum frá 2002 og 2004, en um 11% er af 2003 árganginum.
Árgangar yngri en 2004 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu halda áfram að minnka á næstu árum. Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2012 rúmar 6 milljónir tonna, sem er tæpri milljón tonnum lægra en matið í fyrra.
Aflamark árið 2013 verður 619 þúsund tonn, samkvæmt aflareglu, sem beitt hefur verið á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn árið 2014 verði rúmar 4,3 milljónir tonna ef afli verður samkvæmt aflareglu. Þar sem árgangar yngri en 2004 eru metnir litlir mun hrygningarstofninn minnka enn frekar á næstu árum og verður kominn undir varúðarmörk (Bpa=5 milljón tonn) árið 2014.
Frá þessu er skýrt á vef Hafrannsóknastofnunar.