Íslenska sumargotssíldin er gengin upp að norðanverðu Snæfellsnesi og komin enn á ný inn á Kolgrafafjörð, að því er fram kemur á vef Skessuhorn s.

Lagnetabáturinn Kiddi RE 89 landaði í gær um það bil þremur tonnum af síld sem veiddust inni á firðinum á mánudagskvöld. „Það er einhver síld komin inn á Kolgrafafjörð, þó ekkert miðað við það sem við sáum til dæmis í fyrravetur. En það lóðaði þó á hana. Við fengum einhver þrjú tonn af síld þarna. Mest af þessu frá því við lögðum síðdegis á mánudag og svo fram í myrkur,“ sagði Arnar Kristinsson skipstjóri á Kidda RE í samtali við Skessuhorn í gær, þriðjudag.

Þá hefur sést til síldar við Kiðey vestan við Stykkishólm.