Norskir vísindamenn leggja nú hausinn í bleyti til að finna út hvernig best sé að nýta síldarhratið sem fellur til við flakavinnslu. Þeir hafa dottið niður á nokkrar lausnir. Ensím úr síldinni má meðal annars nota í þvottaefni eða til að bæta ávaxtadrykki, að því er fram kemur á vefnum forskning.no.
Vísindamennirnir benda á að einungis 60% af þeirri síld sem Norðmenn veiði ár hvert endi á steikarpönnunni eða fari í hið vinsæla síldarsalat. Af um 900 þúsund tonnum af síld fari um 360 þúsund tonn í afskurð.
Megnið af afskurðinum er nýtt til framleiðslu á fóðri fyrir fiskeldi og landbúnað. Verð á síldarhratinu er lágt að dómi Norðmanna, fer niður í 2,7 krónur norskar (57 ISK), en verð á flökum frá verksmiðjum er 10 til 15 krónur norskar (210 til 315 ISK).
Vísindamennirnir telja að vinna megi verðmæt ensím úr hratinu og hafa fundið um 25 ensím sem lofa góðu fyrir ýmiskonar framleiðslu. Þeir segja að þar sem síldin lifi í köldu vatni finnist í henni ensím sem hafi mikla virkni við lágt hitastig. Þau geti því nýst vel í þvottaefni.