Síld er komin aftur í Kolgrafafjörð. Dýralíf hefur aukist mikið í desember og þegar ábúendur á Eiði við Kolgrafafjörð krufu skarf í firðinum kom í ljós að hann var fullur af síld. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.
Guðrún Lilja Arnórsdóttir býr á Eiði við Kolgrafafjörð. Hún segir að þau hjónin hafi orðið þess vör í desember að fuglalíf jókst til muna, tvær háhyrningafjölskyldur gerðu sig heimakomnar og haförn og súla eru orðin tíðir gestir: „Okkur finnst þetta vera vísbending að það sé síld í firðinum. Svo var verið að skjóta skarf hérna í firðinum um daginn og þá var bara fullur kviðurinn á honum af síld.“
Þorsteinn Sigurðsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, getur ekki staðfest hversu mikið er af síld í firðinum. Vöktun var hætt í vor vegna þess hve lítið var af síld í firðinum síðastliðinn vetur. Hann segir að það komi á óvart ef síldin er í miklu magni vegna þess að veturseta síldar hefur færst lengra til vesturs og á meira dýpi en áður. Gengið verði í að kanna stöðuna.
Sjá nánar á vef RÚV.