Nemendur Háskólans í Reykjavík tóku um helgina þátt í fyrstu útflutningskeppni sjávarútvegsins. Nemendur höfðu sólarhring til að setja fram áætlun um hvernig koma má ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni. Vinningsliðið fær að heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu í Bandaríkjunum. Auk þess sem þau hafa þegar fengið heimboð frá Samherja og HB Granda.

Það var mat dómnefndar að vinningsliðið hefði sett fram heildræna lausn á meðal annars markaðsmálum, gæðamálum, flutningi vöru og flutningskostnaði. Auk þess hefðu þau sett fram metnaðarfulla áætlun til næstu 10 ára um hvernig auka mætti sölu þorskhnakka í Bandaríkjunum.

Í verkefninu þurfti að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka.

Sjá nánar á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.