Sigurður VE kom inn til löndunar til Vestmannaeyja í byrjun vikunnar með rúm 1.700 tonn af norsk-íslenskri síld. Þetta var síðasti síldartúrinn að þessu sinni hjá Sigurði VE og undirbúningur í fullum gangi fyrir kolmunnatúr suðaustur af landinu. Kvótinn er að verða búinn hjá Ísfélaginu og ekki eftir nema einn síldartúr hjá Heimaey VE. Jón Axelsson skipstjóri segir síldarvertíðina hafa gengið vel og vel fiskast af fallegri demantssíld.

„Það er mikið magn af síld við landið og hún er mun veiðanlegri núna en oft áður. Hún þéttir sig í stórum torfum. Síldin heldur sig úti fyrir Austurlandi allt frá Reyðarfjarðardýpi og norður í Héraðsflóa þar sem aðalveiðin hefur verið á stórsíldinni,“ segir Jón.

Kolmunni hefur verið að veiðast djúpt suðaustur af landinu en innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. „Við ætlum að fara einn kolmunnatúr áður en við förum í heimasíldina.“

Bjartsýnn á loðnuvertíð

Jón er bjartsýnni en margur á komandi loðnuvertíð. Vissulega sé mun minni kvóti en búist hafði verið við en menn ætli að gera meiri verðmæti úr því sem veiðist. Aflinn fari í Japansfrystingu og hrognatöku og vonandi ekki sporður í bræðslu.

„Við skulum líka vona að það verði minna trollað í ár og nótinni kastað oftar,“ segir Jón.

Óttar Steingrímsson 2. stýrimaður og Jón Axelsson skipstjóri á Sigurði VE.
Óttar Steingrímsson 2. stýrimaður og Jón Axelsson skipstjóri á Sigurði VE.
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

„Það er mjög þægilegt að veiða með trolli en trollveiðar eru ekki góðar fyrir loðnustofninn, það get ég fullyrt. Loðnan er þannig fiskur að trollið hefur ekki góð áhrif á göngumynstrið þegar hún kemur upp að landinu. Hún dreifist og trollið drepur meira af loðnu en það veiðir. En það er engin umræða um þetta. Við höfum notað flottroll í 20 ár og það hafa engar rannsóknir af neinu viti verið gerðar á áhrifum slíkra veiða. Það er alveg kominn tími til þess að þetta verði rannsakað til hlítar.“