Sjávarútvegsfyrirtækið Rammi hf. í Fjallabyggð hefur selt frystitogarann Sigurbjörgu ÓF -1 til norska fyrirtækisins Nordnes AS. Þetta staðfestir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en söluverð skipsins er ekki gefið upp.
Sala skipsins er hluti af breytingum vegna komu Sólbergs ÓF 1, nýs togara sem leysir tvo eldri frystitogara Ramma af hólmi, Mánaberg ÓF og svo Sigurbjörgu ÓF, og veiðir aflaheimildir þeirra. Mánaberg ÓF var selt til Rússlands og sigldi til nýrra heimkynna í mars.
Nýttu ekki forkaupsrétt
Á fréttavefnum Héðinsfjörður.is segir að Fjallabyggð hafi boðist forkaupsréttur á skipinu núna í október en sveitarfélagið nýtti sér hann ekki.
„... skipið þótti eitt fullkomnasta fiskiskip íslenska flotans á sínum tíma og var oft kallað Drottningin,“ segir Héðinsfjörður.is. Eins segir frá því að skipið var smíðað árið 1979 og er tæplega 55 metrar að lengd og rúmir 10 metrar á breidd.
Skipið hafði staðið við höfnina í Fjallabyggð síðan í júní, en fór til Póllands í byrjun árs í vélarupptekt. Núna í október fór skipið svo í slipp til Akureyrar áður en það var selt.