Norska útgerðarfélagið Nordnes AS hefur samið við Kleven skipasmíðastöðina í Noregi um að endursmíða gömlu Sigurbjörgina ÓF í hátæknivætt og umhverfisvænt troll- og snurðvoðarskip. Norska útgerðin keypti Sigurbjörgina árið 2017.

Sigurbjörg ÓF var smíðuð árið 1979 í Slippstöðinni hf. á Akureyri fyrir Magnús Gamalíelson á Ólafsfirði. Skipið var alla tíð gert út frá Ólafsfirði, síðustu árin undir Ramma HF.

Gamla Sigurbjörgin fær nafnið Nordbas og á að leysa af hólmi troll- og snurvoðarskipið Nordørn.

Einstakt verkefni

Kjetil Bollestad, framkvæmdastjóri Kleven, segir verkefnið framundan alveg einstakt. Nýtt skip verði til á grunni eldra skips og það muni innihalda allar óskir útgerðarinnar hvað snýr að nýjungum og umhverfisvænni tækni. Með smíðinni verði í raun ný tegund fiskiskips skilgreind. Tormund Grimstad, yfirmaður NordnesGruppen, móðurfélags Nordnes AS, segir að leitað verði samstarfs við norsk tæknifyrirtækja um smíðina.

„Með þessu verkefni tökum við ábyrga afstöðu til umhverfisins. Við munum draga úr kolefnisspori okkar með endurnýtingu og hámarks orkunýtingu,“ segir Grimstad.

Skipið verður lengt, byggt verður nýtt vélarrúm og ný brú með hátæknivæddum búnaði auk þess sem sett verður í það nýjar vélar og gírbúnaður. Skipið verður útbúið með stórum rafgeymastæðum til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Spil verða rafdrifin og um borð verður ný og hátæknivædd fiskvinnsla.