Sigga Vigga er einhleyp en hefur fullan hug á eignast mann, þó með því skilyrði að hann eigi trillu. Hún hefur alla sína tíð starfað hjá fiskvinnslufyrirtækinu Þorski Hf, sem einkum vinnur saltfisk.

Oftast nær er Sigga Vigga rödd skynseminnar en á þó til ærslafyllri hliðar og hefur til að mynda þá áráttu að kasta þorskhausum í saklausa borgara. Hún er einnig knattspyrnuáhugakona og segist yfirleitt þurfa að mæta í jarðaför ömmu sinnar á leikdögum.

Blíða er besta vinkona Siggu Viggu. Hún er hjartahreinn fáráður með óslökkvandi ástríðu fyrir snúðum, sem hún hesthúsar 47 stykkjum af á degi hverjum. Líkt og vinkona sín þráir hún eiginmann sem á trillu og helst einnig forskalað hús. Blíða gengur ætíð með öryggishjálm, einnig utan vinnunnar.

Hún var að hrekkja mig

Sigga Vigga og tilveran eru sögur eftir Gísla J. Ástþórsson blaðamanns og ritstjóra á Alþýðublaðinu og blaðamanns á Morgunblaðinu. Hann var áhugateiknari og birti stundum smáteikningar og skipamyndir í blaðinu. 9. maí 1959, í miðju 12 mílna þorskastríðinu, birti Gísli mynd í Alþýðublaðinu af Maríu Júlíu, stríðnislegri síldarstúlku með naglaspýtu, og breskum aðmírál og embættismanni að kveinka sér undan hrekkjunum. Textinn með myndinni var: Lítið lagðist fyrir ljónið. Myndin varð fleyg og rataði meðal annars í stórblaðið London Times, sem dæmi um andrúmslotftið á Íslandi vegna fiskveiðideilnanna.

Í viðtali í Sjómannadagsblaðinu 1988 rakti Gísli upphaf Siggu Viggu sagnanna til vinsældar þessarar myndar. „Það má allt eins segja að Sigga Vigga hafi hafið göngu sína í London Times eins og Alþýðublaðinu.“

Sögurnar drógu upp broslega mynd af lífinu í íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu, auk þess sem í þeim í þeim var talsverður pólitískur broddur. Sigga litla Vigga er dóttir Siggu Viggu og lifandi eftirmynd hennar. Hún kemur einungis fyrir í hluta sagnaflokksins. Oftar en ekki kemur hún móður sinni í vandræði með óþarfa hreinskilni og spyr áleitinna spurninga af barnslegri einfeldni.

Plokkfiskur

Gvendur er vinnuveitandi Siggu Viggu hjá Þorski hf. Hann er staðalmynd af kapítalista; sköllóttur, feitlaginn og fínn í tauinu. Hann er drykkfelldur í meira lagi og verður þá tíðrætt um hjónabandsvandræði sín. Rekstur Þorsks hf. gengur brösuglega og bregst Gvendur því ætíð illa við launakröfum starfsfólksins. Hann nýtur þó takmarkaðrar virðingar undirmanna sinna og kasta Sigga Vigga og Blíða einatt blautum þorskhausum í höfuð hans.

Myndasögurnar af Siggu Viggu birtust í rúman áratug á Morgunblaðinu frá 1973 og út kom úrval gamalla og nýrra Siggu Viggu myndasagna í fimm litlum bókum í kringum 1980. 1979 kom einnig út bókin Plokkfiskur eftir Gísla. Plokkfiskur var samheiti teiknisyrpu sem höfundurinn hélt úti í Sjávarfréttum, forvera Fiskifrétta, um nokkurra ára skeið. Vinir og vandamenn Siggu Viggu eru þar í aðalhlutverkum en auk þeirra koma við sögu stórforstjórar, kvennabósar, hart leiknir sáttasemjarar og bankastjórar.

Heimildir: Alþýðublaðið, Sjómannadagsblaðið, Wikipedia.