Bækurnar fimm um Siggu Viggu og félaga eru nú endurútgefnar í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá fæðingu teiknarans. Jafnframt hefur verið opnuð sýning á verkum Gísla J. Ástþórssonar í Bókasafni Kópavogs.

Um árabil teiknaði Gísli einnig skopmyndir í Fiskifréttir. Þær voru sömu ættar og Sigga Vigga og aðrar teikningar Gísla, draga upp skoplegar myndir úr veruleika fiskvinnslufólks og jafnan með alvarlegum undirtón.

Myndasögurnar um Siggu Viggu eru einstakar því þær eru sprottnar úr íslenskum veruleika, útgerð og fiskvinnslu, og segja frá lífi fiskvinnslustúlkunnar Siggu Viggu, vinkonu hennar Blíðu og samstarfsfólks.
Sigga Vigga birtist fyrst árið 1959 á síðum Alþýðublaðsins og er af mörgum talin vera fyrsta íslenska myndasöguhetjan. Árið 1978 kom út fyrsta bókin um Siggu Viggu og félaga.

Gísli var fjölhæfur listamaður og eftir hann liggja skáldsögur, smásögur, barnabók, leikrit og útvarpsþættir, auk myndasagna bæði í blöðum og bókum um Siggu Viggu.