TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar sem nú er staðsett við Miðjarðarhaf flaug í gær yfir Sigurð VE, nýtt skip Vestamannaeyinga sem er á leið til landsins frá Tyrklandi þar sem skipið hefur verið í smíðum.  Sigurður VE er væntanlegur til heimahafnar seint í næstu viku.

Áhöfn TF-SIF tók mynd af skipinu úr eftirlitsbúnaði flugvélarinnar. Verkefni TF-SIF felst í eftirliti fyrir landamæraeftirlitsstofnun Evrópusambandsins, Frontex og fer flugvélin daglega í eftirlitsflug þar sem fylgst er með umferð skipa og báta á svæðinu.  Fjórir eru í áhöfn flugvélarinnar auk flugvirkja. Einnig er einn starfsmaður Landhelgisgæslunnar staðsettur í stjórnstöð Frontex í Róm.